Tilefni þessarar greinar var upphaflega að fara yfir stöðu á mörkuðum í lok kórónu-faraldursins og meta hvaða áhrif hann hafi haft á sölu, dreifingu og neyslu á sjávarafurðum. Þróun í vetur og atburðir í vor hafa valdið því að áhrif faraldursins skipta nú minna máli. Því er nauðsynlegt að ræða líka hvaða áhrif stríðið í Úkraínu getur haft, kostnaðarhækkanir, sveiflur í framboði og verð á fiski. Ýmis merki eru um erfiðari stöðu á komandi vetri.

Sá faraldur sem geisaði um heiminn frá upphafi 2020 hefur verið einstakur og valdið breytingum á lífi fólks sem enginn átti von á. Daglegt líf breyttist, verslanir voru lengi lokaðar, skólastarf fór að mestu leyti fram í heimahúsum og á netinu, margir unnu heiman frá og samgöngur milli landa lágu lengi niðri. Neysla matvæla breyttist því veitingahús lokuðu sem og mörg mötuneyti. Þessar breytingar höfðu áhrif  á fiskneyslu og fóru viðskipti með sjávarafurðir  ekki varhluta af því.

Fram á seinni hluta síðasta árs voru áhrif faraldursins á sölu og neyslu mjög mikil. Matvæli seldust aðallega í smásölu, netsala jókst mikið og eftirspurn hjá heimsendingarfyrirtækjum varð mun meiri. Fólk ferðaðist ekki og því hrundi öll sala á fiski til ferðamanna. Veitingahúsamarkaðurinn drógst verulega saman nema þar sem hægt var að koma á „take-away“ sölu, en það gekk vel hjá t.d. „fish and chips“ stöðum í Bretlandi.

Þessar breytingar komu sér vel fyrir marga seljendur en aðrir sem háðir voru neyslu utan heimilis þurftu að breyta um stefnu og sækja á þann markað sem seldi til neyslu innan heimilanna. Framleiðendur á frystum afurðum fundu töluvert fyrir breytingunum þar sem frystar afurðir henta vel fyrir veitingahús og stóreldhús. Sala á frystum tilbúnum afurðum jókst mjög mikið og framleiðendur gátu varla mætt eftirspurn, og sala á „kældum afurðum“ (chilled), gekk mjög vel.

Til viðbótar höfðu smit þær afleiðingar að það þurfti að loka verksmiðjum og leggja skipum í margar vikur til að ná utan um vandann. Kostnaður margra framleiðenda og dreifenda jókst mikið, þar sem þeir þurftu að grípa til ýmissa ráðstafana til að koma í veg fyrir smit.

Í dag hefur dregið úr áhrifum faraldursins á sölu og neyslu, en mjög líklegt er að hluti af aukinni neyslu innan heimilis muni haldast. Nú hefur stór hluti íbúa Vesturlanda verið bólusettur og hjarðónæmi virðist vera í mörgum löndum. Það er kominn nýr veruleiki, kórónaveiran er orðin hluti af daglegu lífi og nú beinist athyglin að öðrum málum.

Vandamál í Kína

Faraldurinn hafði mikil og margs konar áhrif í Kína, og ekki er séð fyrir endann á þeim enn. Kínverjar hafa frá því haustið 2020 sett hömlur á innflutning, m.a. á hráefni til vinnslu í landinu með núll covid stefnu sinni. Þetta hefur leitt til samdráttar í innflutningi á mörgum afurðum, s.s. heilfrystum þorski, Alaska ufsa, grásleppu og fjölda annarra afurða, en þessar aðgerðir og tafir við innflutning hafa aukið kostnað framleiðenda í Kína mikið ofan á hækkun launa.

Aðgerðir í Kína standa enn, smitum hefur fjölgað mikið og hefur staðan versnað síðustu vikurnar. Þær draga úr vinnslugetu í landinu sem og úr eftirspurn, en Kína er ekki aðeins mikilvægt vinnsluland fyrir heiminn heldur einnig sem neytendamarkaður. Nái Kinverjar ekki tökum á faraldrinum á næstu misserum mun það valda ófyrirséðum afleiðingum.

Íslensk lifur í verslun í Úkraínu. Mynd/Kristján Hjaltason
Íslensk lifur í verslun í Úkraínu. Mynd/Kristján Hjaltason

Miklar verðhækkanir

Þegar eftirspurn eftir ýmsum neytandavörum jókst í lok 2020, líklega vegna aukinnar kaupgetu, jókst útflutningur frá Kína það mikið að skortur varð á gámum, verð fyrir flutninga margfaldaðist og hafnir í t.d. Norður-Ameríku voru fullar af gámaskipum sem biðu losunar. Í framhaldinu jókst eftirspurn eftir flestu hráefni, hvort sem það var til húsgagna- eða pappírsframleiðslu, örflögum, olíu og annarrar orku, sem leiddi til skorts og mikilla verðhækkana á flestum afurðum og aðföngum til iðnaðar.

Útgerðarmenn finna einnig fyrir hækkun olíuverðs, umbúða og annars. Hækkandi afurðaverð hjálpar, en líklegt er að lækki olíuverð ekki fljótlega muni það hafa áhrif á ýmsar veiðar.

Faraldurinn hafði mikil áhrif á vöruflutninga og er ekki séð fyrir endann á háum gámaverðum, sérstaklega til og frá Kína og í Norður-Atlantshafi. Verksmiðjur gátu ekki lengur treyst á „just in time“ afhendingar og jókst þ.a.l. birgðahalda á öllum stigum keðjunnar.

Stríð og viðskiptahindranir

Stríðið í Úkraínu kom í framhaldi af ofangreindum vandamálum og mun það einnig leiða til truflana á mörkuðum, m.a. fyrir sjávarafurðir. Úkraína, sem mikilvægur markaður fyrir íslenskar uppsjávarafurðir, er enn til staðar, en stuðningur Vesturlanda við landið skiptir miklu máli.

Gripið hefur verið til ýmissa viðskiptaþvingana gegn Rússlandi á Vesturlöndum. Innflutningur til Bandaríkjanna er bannaður og líklegt er að Kanada fylgi þeim. Bretland undirbýr að setja á 35% viðbótartoll, en Evrópusambandið hefur aðeins bannað innflutning á fáum, dýrum afurðum. Til viðbótar hefur Japan hækkað tolla á nokkrum rússneskum tegundum. Ýmsar aðrar hindranir gegn viðskiptum við Rússland eru í gangi, og líklegt er að fleiri muni koma eftir því sem stríðið varir lengur.

Áhrif stríðsins eru m.a. þau að eftirspurn er meiri eftir fiski frá íslenskum framleiðendum og öðrum nágrönnum. En það eru ekki bara jákvæðar afleiðingar, orkuverð helst hátt og ýmiss konar raskanir verða á mörkuðum sem hækkar kostnað á mörgum sviðum. Það dregur úr getu markaða til lengdar að greiða há verð.

"Kældur“ þorskur í pólskri smásölu. Mynd/Kristján Hjaltason
"Kældur“ þorskur í pólskri smásölu. Mynd/Kristján Hjaltason

Samdráttur og há verð

Í ár verður samdráttur í veiðum á þorski í Barentshafi og á Íslandi, þar að auki dregur úr veiði breskrar útgerðar í Barentshafi vegna deilna við Noreg og íslenskra skipa í rússneskri lögsögu, en það minnkar framboð sjófrystra flaka. Þó svo að árið hafi byrjað vel með ýsuveiðar, mun verða mun minna framboð af henni í ár en í fyrra og svipuð staða er einnig með Alaska ufsa og aðrar botnfisktegundir.

Eftirspurn í Bandaríkjunum jókst mikið þegar veitingahúsamarkaðurinn opnaðist, en þar sem afurðir frá Kína höfðu hækkað í verði og ósk margra um að hætta  innkaupum frá Kína, jukust innkaup frá Evrópu og verð hækkuðu kröftuglega eftir það, líka í Evrópu.

Sala á flakaafurðum gengur mjög vel í dag, sem og á heilfrystum fiski til vinnslu. Verð á flestum afurðum er hærra en elstu menn muna, það er skortur og góðar horfur næstu mánuði með sölu flestra sjávarafurða.

Kemur bakslag í vetur?

Stríðið í Úkraínu veldur vaxandi óvissu með sölu fiskafurða. Þegar þetta er skrifað í lok maí bendir allt til þess að það muni standa lengi og leiða til enn meiri óvissu á mörgum sviðum. Allar líkur eru á að kóróna smitum fjölgi í haust sem trúlega mun hafa minni áhrif en annað sem hér hefur verið rætt.

Reyktur uppsjávarfiskur í úkraínskri smásölu. Mynd/Kristján Hjaltason
Reyktur uppsjávarfiskur í úkraínskri smásölu. Mynd/Kristján Hjaltason

Horfur í vetur fyrir sjávarútveginn eru því ekki endilega góðar. Afurðaverð hafa hækkað mjög mikið á stuttum tíma, en ekki geta allir markaðir greitt þessi verð til lengdar. Miklar hækkanir allra kostnaðarliða framleiðenda og dreifenda mun leiða til verðhækkana til neytenda. Hækkandi smásöluverð, mikil hækkun orkuverðs, og hækkandi vextir eftir langt lágvaxtatímabil mun leiða til samdráttar í ráðstöfunartekjum neytenda. Þess vegna eru allar líkur á því að eftirspurn muni dragast saman á mörgum mörkuðum.

Höfundur býr í Berlín, hann starfar sem sölustjóri hjá Norebo Europe og sér um sölu á frystum afurðum á meginlandi Evrópu. Kristján er einn af stofnendum Sjávarútvegsráðstefnunnar.