Þau tímamót urðu í gær í uppbyggingu landeldis í Vestmannaeyjum að fyrstu hrognin voru tekin inn í seiðaeldisstöð LAXEY. Stöðin er innst í Friðarhöfn og er ein sú tæknilegasta í heimi. Hún verður fær um að framleiða 4 milljónir 100 gramma seiða þegar hún verður í fullri notkun. Stefnt er að fyrstu slátrun eftir tæp tvö ár.

Stóra stundin

Stöðin er byggð upp með fremstu tækni sem völ er á fyrir starfsemina og leggur grunn að nýjum iðnaði fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum.

„Nú er stóra stundin að renna upp,“ sagði Hallgrímur Steinsson, yfirmaður tæknimála hjá LAXEY, þegar rætt var við hann í gær þegar hann var í þann mund að taka á móti fyrstu hrognunum.

„Við erum að taka á móti 300.000 hrognum núna í fyrsta skammti. Við stefnum að því að taka fjóra „batcha“ á ári. Ástæðan fyrir því að sá fyrsti er svo lítill er sú að vera ekki með of mikið undir þegar við erum að keyra upp kerfið í fyrsta sinn. En svo stækka skammtarnir í framhaldinu. Allt að 1.200.000 egg verða í hverjum skammti í framtíðinni,“ segir Hallgrímur.

Lágmarks vatnsnotkun

Sem kunnugt er laskaðist vatnslögnin til Eyja nýlega en Hallgrímur segir að það hafi ekki áhrif á starfsemina. Í stöðinni er fullkomnasta vatnsendurnýtingarkerfi á landinu og lágmarksnotkun verður á vatni fyrstu mánuði starfseminnar.

„Við reiknum með að það verði búið að laga vatnslögnina áður en við þurfum á verulegu magni af vatni að halda,“ segir Hallgrímur. Það yrði ekki fyrr en næsta sumar sem vatnsnotkun eykst til muna. Engu að síður verður notkunin í seiðaeldisstöðinni alltaf mun minni en í sambærilegum gerðum stöðva hér á landi. Stöðin verður rekin með 2-3 lítrum af vatni á sekúndu.

Hallgrímur Steinsson, yfirmaður tæknimála hjá LAXEY.
Hallgrímur Steinsson, yfirmaður tæknimála hjá LAXEY.

Hrognin sem nú er verið að taka inn verða sett í sjó í landkvíum í Viðlagafjöru í október á næsta ári. Eftir það tekur það 12 mánuði að ala fiskinn upp í sláturstærð.

Landeldi LAXEY í Vestmannaeyjum á eftir að skapa fjölda starfa og nú þegar starfa á annað hundrað manns við uppbyggingu verkefnisins. Til lengri tíma litið verða þau störf framleiðslustörf við eldið og síðar meir við slátrun.