Óskar Sigmundsson, framkvæmdastjóri Marós í Þýskalandi, hefur stungið upp á því að nýjar og jafnvel nýstárlegar leiðir verði farnar við markaðssetningu sjávarafurða. Í erindi sem hann flutti á Þekkingarsetri Vestmannaeyja í vor sagði hann að Vestmannaeyjar gætu sem hægast lagt áherslu á sérstöðu sína þegar kemur að því að selja fiskinn á markað erlendis. Selja eigi útlendingum sögu útgerðar í Eyjum, nálægðina við miðin og staðsetninguna við rætur jökla og eldfjalla.

„Mín hugmynd væri að þið mynduð gera úr Vestmannaeyjum stærsta frystitogara landsins, Vestman Islands VE 900,“ sagði hann við áheyrendur í Eyjum, en sjálfur er Óskar úr Eyjum og þekkir því vel til.

„Þið eruð með nálægðina hérna, þetta er ekki nema tveggja til sex klukkustunda sigling á miðin. Hér getið þið verið í svakalega mikilli nálægð við sjófrystar afurðir, með þekkinguna úr uppsjávargeiranum á frystingu og kælingu. Frystigetan er til staðar. Það er allt hérna til staðar til að vera með súperlandfryst gæði. Þið getið komist ansi nálægt sjófrystum gæðum.“

Hann ráðleggur Vestmannaeyingum að selja „upprunann, nafnið, veiðislóðina og nálægðina við gjöful fiskimið, við rætur stærstu jökla í Evrópu og á eldfjallasvæðinu við Suður- og Suðvestur-Ísland.“ Leggja eigi áherslu á staðsetningu Íslands í hafinu, við Golfstrauminn og Grænlandsstrauminn, og segja fólki „sögu útgerðar, fiskvinnslu, gelluvagna og trillukarla við hliðina á stóru uppsjávarskipunum. Þetta er allt hér til staðar.“

Hann segir jafnframt að samkeppnin sé ekki lengur bara við Kína heldur einnig við Austur-Evrópu. Hráefnið hefur farið mikið í gegnum Holland til Kína, en vægi Kína er að minnka.

„Stóru verksmiðjurnar í Austur-Evrópu eru að stækka og verða veigameiri. Þangað er meira hráefni að streyma og Cuxhaven er mun nær Austur-Evrópu heldur en Holland,“ sagði Óskar, en fyrirtæki hans er staðsett í Cuxhaven og einbeitir sér að markaðssetningu á íslenskum gullkarfa.