Þeim fyrirtækjum sem tengjast bláa hagkerfinu hefur fjölgað innan Íslenska sjávarklasans að undanförnu.

Primex, sem hefur verið í fararbroddi nýsköpunar með rækjuskel, flutti nýverið í Hús sjávarklasans Höfuðstöðvar Primex eru á Siglufirði.

Rotovia, móðurfélag Sæplasts og iTUB, hefur einnig komið sér fyrir í klasanum sem og Fiskmarkaður Íslands sem nýlega bættist í klasann. Þá er nýsköpunarfyrirtækið Stika að bætast í klasann en þetta fyrirtæki á án efa eftir að koma eins og stormsveipur inn í umhverfismál sem tengjast m.a. sjávarútvegi.

Íslenski sjávarklasinn fagnar því einnig að fá til sín tvær arkitektastofur. Þær eru JSVT, sem hefur unnið að framtíðahugmyndum um uppbyggingu í Örfirisey, og Urban Arkitektar sem hafa unnið náið með eldisfyrirtækjum víðs vegar um land. Starfsmönnum hjá fyrirtækjunum Eylíf og Marintech hefur fjölgað í húsinu.