Snjóflóðahættan sem skapast hefur á Austfjörðum hefur tafið lok loðnuvinnslunnar hjá fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Verksmiðjurnar voru báðar rýmdar í gærmorgun og þá voru eftir 900 tonn til vinnslu hjá verksmiðjunni í Neskaupstað og tæp 1.000 tonn hjá verksmiðjunni á Seyðisfirði.

Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, segir að síðasta loðnulöndun í Neskaupstað hafi verið úr grænlenska skipinu Polar Ammassak á laugardag og sú loðna hafi farið til hrognavinnslu. Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, segir að síðasta löndunin þar hafi verið á sunnudag en þá kom Vilhelm Þorsteinsson EA með 1.200 tonn. Eftir að ákveðið var að rýma voru báðar verskmiðjurnar keyrðar niður með lágmarksstarfsmannafjölda í samráði við Veðurstofu Íslands.

Fiskur sendur annað til vinnslu

Að sögn Geirs Sigurpáls Hlöðverssonar, rekstrarstjóra fiskiðjuversins í Neskaupstað, var allri vinnslu lokið í fiskiðjuverinu í Neskaupstað áður en snjóflóðahættan skapaðist. „Við lukum frystingu á loðnuhrognum aðfaranótt sunnudags og það var lokið við að þrífa á sunnudagsmorgun þannig að enginn var að störfum í fiskiðjuverinu þegar hættuástandið skapaðist,“ segir Geir Sigurpáll.

Ómar Bogason, rekstrarstjóri frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, upplýsir að ákveðið hafi verið að afboða starfsfólk frystihússins í gærmorgun áður en tilkynning um rýmingu barst.

„Vegna ófærðar og aðstæðna var ákveðið að vinna ekki þennan dag en síðan kom fljótlega tilkynning um rýmingu. Nú í dag kom Gullver NS úr veiðiferð með 85 tonn af blönduðum afla. Sá fiskur verður sendur annað til vinnslu og það mun ganga vel því Fjarðarheiði er orðin fær,“ segir Ómar.

Flestir virðast gera ráð fyrir því að rýmingar muni verða í gildi bæði í Neskaupstað og á Seyðisfirði fram að helgi þannig að loðnan í tönkum fiskimjölsverksmiðjunna mun þurfa að bíða vinnslu enn um sinn.