„Húsið er fullbúið og öll tæki komin á staðinn. Þannig að við erum á lokametrunum og munum hefja framleiðslu núna í haust,“ segir Viðar Þorkelsson, framkvæmdastjóri Foodsmart Nordic, sem hyggur á framleiðslu fæðubótarefna úr fiskafurðum á Blönduósi.

Foodsmart Nordic mun framleiða kollagen úr fiskroði, fiskprótein úr marningi og sæbjúgnaduft.

„Við erum ekki að selja beint inn á neytendamarkaðinn sjálf heldur erum við að selja öðrum fyrirtækjum,“ segir Viðar. „Í grunninn erum við að framleiða hráefni eins og kollagen, sæbjúgnaduft og fiskprótein sem er notað til íblöndunar í fullbúna vöru. Við erum reyndar líka með aðstöðu til að blanda og pakka þannig að við getum boðið upp á þjónustu þar sem við erum að fullvinna vöruna fyrir þá sem það vilja.“

Vaxandi samkeppni um roðið

Aðspurður kveður Viðar markaðinn fyrir framleiðsluna líta vel út.

Viðar Þorkelsson framkvæmdastjóri FoodSmart Nordic
Viðar Þorkelsson framkvæmdastjóri FoodSmart Nordic

„Í heiminum er töluverð umframeftirspurn eftir kollageni. Við höfum verið í sambandi við erlenda aðila sem eru mjög áhugasamir, þannig að ég myndi segja að söluhorfur séu mjög góðar,“ svarar hann.

Viðar segir aðferðarfræði Foodsmart blandaða og það geri fyrirtækið ekki háð einhverju tilteknu hráefni.

„En það er ljóst að það er vaxandi samkeppni um til dæmis roð á Íslandi, sem mun örugglega hafa áhrif á verð og fleira, en okkar nálgun er svolítið breiðari því við erum ekki að veðja á bara eitt hráefni og eina vöru,“ segir Viðar.

Að Foodsmart Nordic stendur hópur fólks sem Viðar segir hafa verið lengi í fæðubótarbransanum og þekki inn á hann og inn á neytendamarkaðinn.

Grunnurinn úr Skagafirði

„Þannig að við erum kannski að koma svolítið úr annarri átt en sumir aðrir. Það eru aðilar sem eru búnir að vera að byggja upp vörumerki á Íslandi á fæðubótarmarkaði,“ segir Viðar.

Grunnurinn að Foodsmart Nordic fékkst að sögn Viðars meðal annars með kaupum á rekstri fyrirtækisins Prótís af Kaupfélagi Skagfirðinga. Það fyrirtæki hafi markaðssett vörur sínar undir sama vörumerki.

Ljóst virðist að Foodsmart Nordic verði nokkur lyftistöng fyrir atvinnulífið á Blönduósi og Viðar tekur undir það.

„Við erum að gera ráð fyrir því að þegar við erum komin á fulla ferð að það verði þá í kring um fimmtán manns eða svo,“ segir Viðar.

Kostnaðurinn við uppbygginguna á Blönduósi mun nema um 600 milljónum króna. Áætlað er að framleiðslugeta í fyrsta áfanga nemi um 150 tonn af fæðubótarefnum.