Um þessar mundir hefja fimm nýjir starfsmenn störf hjá Geo Salmo, en félagið er langt komið með undirbúning vegna uppbyggingar fiskeldisstöðvar sinnar í Ölfusi, við Þorlákshöfn. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta næsta árs.

Geo Salmo stefnir á eldi á umhverfisvænum hágæðalaxi í lokuðu fiskeldiskerfi á landi. Norska fyrirtækið Artec Aqua hefur verið fengið til þess að hanna eldisstöðina og stýra uppbyggingu hennar.

Nýju starfsmennirnir koma til með að sinna margs konar verkefnum tengdum uppbygginu félagsins, en fiskeldisstöðin og tengdar byggingar eru meðal stærstu framkvæmda sem einkaaðili hefur ráðist í á Íslandi.

Eva Dögg Jóhannesdóttir hóf störf snemma í haust og gegnir starfi gæða- og umhverfisstjóra fyrirtækisins. Hún er sjávarlíffræðingur en hefur einnig numið fiskeldisfræði. Hún hefur margþætta reynslu af rannsóknum sem tengjast umhverfisáhrifum fiskeldis en starfaði síðast að leyfamálum og rannsóknum hjá Arctic Fish.

Eyþór Helgason hóf einnig störf snemma hausts sem tæknistjóri félagsins. Hann er tæknifræðingur og vélstjóri og hefur víðtæka reynslu af hönnun og rekstri flókinna tæknilegra kerfa. Hann mun stýra verkefnum er snúa að vélbúnaði og uppbyggingu mannvirkja.

Karl Kári Másson hóf störf á dögunum sem fjármálastjóri Geo Salmo (CFO). Hann er viðskiptafræðingur með MBA gráðu og hefur m.a. starfað í ýmsum stöðum hjá Landsbankanum og Kviku, og nú síðast í fyrirtækjaráðgjöf Kviku í 5 ár.

Garðar Sigþórsson hóf einnig nýverið störf sem yfirmaður seiðaeldis. Hann er fiskeldisfræðingur og hefur yfir 20 ára reynslu í fiskeldi á landi, hjá Stofnfiski, Arnarlaxi og Löxum fiskeldi. Hann mun koma að öllu seiðaeldi fyrirtækisins, m.a. endurbyggingu seiðastöðvar félagsins í Landsveit og uppbyggingu nýrrar seiðastöðvar í Ölfusi.

Jóhannes Gíslason mun að lokum hefja störf á næstu misserum, en hann hefur verið ráðinn yfirmaður sölu- og markaðsmála hjá Geo Salmo. Jóhannes er viðskiptafræðingur með sterka reynslu af sölu fiskafurða, þ.á.m. síðastliðin 6 ár hjá Arnarlaxi. Hann mun byggja upp sölukerfi og markaðsstaðsetningu fyrirtækisins.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri Geo Salmo, segir fyrirtækið stefna á umfangsmikinn vöxt á næstu árum og afar mikilvægt sé að njóta liðsinnis starfsfólks með fjölbreytta reynslu af viðfangsefnum fyrirtækisins.

„Það er verulega ánægjulegt að sjá að fyrirtækið er aðlaðandi fyrir reynslumikið starfsfólk og teymið er nú vel í stakk búið að takast á við verkefnin framundan.“

.