Hafrannsóknastofnun hefur staðfest eldisuppruna 164 laxa með útlits- og erfðagreiningu. Að meðtöldum þeim 27 eldislöxum sem greint var frá í fréttatilkynningu 19. september síðastliðnum. Nánar er sagt frá þessu á vef Hafrannsóknastofnunar.

Aðeins tveir laxar með möguleg ytri eldiseinkenni reyndust villtir íslenskir laxar (einn úr Mjólká í Arnarfirði og einn úr Hólsá/Rangám á Suðurlandi).

161 lax rakin til slysasleppinga í Patreksfirði

Af 164 eldislöxum hefur verið hægt að rekja 161 til slysasleppingar í Patreksfirði sem tilkynnt var MAST í ágúst á þessu ári. Ekki var hægt að rekja þrjá eldislaxa til þessa atburðar.

Hafrannsóknastofnun hafa borist alls 306 laxa til greiningar og á eftir að erfðagreina 142. Sú vinna fer nú fram á Matís.

Enn berast meintir eldislaxar

Hafrannsóknastofnun eru enn að berast meintir eldislaxar til greiningar. Hafrannsóknastofnun þakkar veiðimönnum sem skilað hafa fiskum til greiningar og áréttar mikilvægi þess til að fá sem besta mynd af umfangi eldislaxa í ám og dreifingu þeirra.