Metár var í útflutningi á eldisafurðum á síðasta ári. Alls voru fluttar út eldisafurðir fyrir um 49 milljarða króna, sem er um 39% aukning frá fyrra ári á föstu gengi. Afurðaverðshækkanir spiluðu stóra rullu í þessari aukningu á milli ára, enda var margfalt minni aukning að magni til, eða um 11%, að því er fram kemur í umfjöllun á heimasíðu SFS sem byggir á tölum Hagstofu Íslands.

Þessa aukningu í verðmætum má að langstærstum hluta rekja til laxeldis. Þannig var útflutningsverðmæti lax um helmingi meira á árinu 2022 en árið á undan, á föstu gengi. Eins var dágóð aukning í útflutningsverðmætum frjóvgaðra laxahrogna sem eru verðmæt hátækniframleiðsla, eða sem nemur um 38% á föstu gengi. Á hinn bóginn varð talsverður samdráttur í útflutningsverðmætum silungs, eða um 15% á föstu gengi. Útflutningsverðmæti annarra eldisafurða nam rétt um 1 milljarði króna og dróst saman um 14% á föstu gengi.