„Í þessum töluðu orðum eru síðustu loðnuhrognin í frystitækjunum okkar. Þegar hrognin eru komin á sinn geymslustað lýkur loðnuvertíð sem telst einstæð fyrir margra hluta sakir,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, á heimasíðu fyrirtækisins.

Hann stiklaði á stóru um það sem gerir nýafstaðna vertíð sérstaka og velheppnaða.

„Við frystum alls um 9.000 tonn af loðnu og loðnuhrognum, margfalt meira en gera mátti ráð fyrir í fyrstu.

Í upphafi bjuggum við okkur nefnilega undir vertíð í tveimur stuttum lotum, annars vegar í loðnufrystingu, hins vegar í hrognafrystingu.

Aflaheimildirnar okkar voru fyrst um 15.000 tonn en enduðu í tæplega 40.000 tonnum.

Reyndin varð sú að veðrið lék við okkur á miðunum og veiðarnar gengu skínandi vel. Hrognafrysting fylgdi loðnufrystingu fast eftir svo úr varð sleitulaus törn í landvinnslunni. Unnið var samfellt á vöktum dag og nótt frá 15. febrúar þar til nú, 21. mars. Svona nokkuð höfum við aldrei upplifað áður.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON

Ég á engin orð til að lýsa þakklæti í garð starfsfólks okkar og þrautseigju þess til sjós og lands. Vinnuálagið var gríðarlegt í vertíðartörn sem á sér enga hliðstæðu í fyrirtækinu. Starfsfólkið stóð sig frábærlega og gott betur en það.

Uppsjávarvinnslan kallaði eðlilega á meiri mannskap en við sáum fyrir. Þess vegna urðum við að færa fólk þangað úr saltfiskinum og draga tímabundið úr saltfiskframleiðslu. Nú hrekkur sá þáttur starfseminnar í fyrra horf.

Loðna og loðnuafurðir fara sem fyrr aðallega á markaði í Asíuríkjum, einkum til Japans. Aflabrestir og sveiflur í loðnuveiðum á undanförnum árum hafa samt haft áhrif í Japan líkt og gera mátti ráð fyrir en aðrir markaðir í Asíu sótt í sig veðrið á sama tíma.

Þegar við lítum okkur nær í heiminum er Rússlandsmarkaður auðvitað lokaður. Hins vegar flytjum við ögn af loðnuafurðum til Úkraínu þrátt fyrir stríðsástandið. Úkraínumenn kaupa lítið í einu enda ekki spenntir fyrir því að safna birgðum í frystigeymslur af augljósum ástæðum. Reyndar er alveg ótrúlegt að skynja hvernig reynt er að halda samfélaginu í Úkraínu gangandi á stórstyrjaldartímum og verjast um leið linnulausum sprengjuárásum og hvers kyns ógnunum af hálfu rússneska innrásarliðsins.“