Matvælastofnun hefur veitt Arnarlaxi rekstrarleyfi til fiskeldis að Gileyri við Tálknafjörð. Að því er segir á vef stofnunarinnar er um að ræða nýtt rekstrarleyfi fyrir 1.000 tonna hámarkslífmassa vegna seiðaeldis á laxi og bleikju.

„Arnarlax hf. sótti um nýtt rekstrarleyfi fyrir 1.000 tonna hámarkslífmassa í seiðaeldi á laxi og bleikju að Gileyri við Tálknafjörð. Umsókn um nýtt rekstrarleyfi var móttekin þann 1. júní 2022. Starfsemin er einnig háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

Heimilt er að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu rekstrarleyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu þessarar auglýsingar,“ segir á mast.is þar sem finna má ítarefni vegna leyfisveitingarinnar.

Eldra leyfi útvíkkað

Fjallað var um leyfissumsókn Arnarlax á vef Táknarfjarðarhrepps í nóvember síðastliðinn. Þar kom fram að þegar væri fyrir hendi leyfi fyrir 200 tonna ársframleiðslu á Gileyri og að um væri að ræða breytingu á leyfinu sem gerði Arnarlax kleift að fimmfalda seiðaframleiðsluna upp í 1.000 tonn.

„Að mati Umhverfisstofnunar eru þeir þættir er snúa að starfsleyfinu vegna losunar næringarefna bæði á föstu og uppleystu formi. Áætluð losun næringarefna verður undir þeim mörkum sem almennt er miðað við varðandi losun í sjó með þeirri hreinsun sem fyrirtækið hyggst notast við. Hægt er að endurskoða fyrirkomulag fráveitu frá eldinu og gera auknar kröfur bendi mælingar til þess að hreinsun sé ábótavant,“ sagði á talknafjordur.is.