Matvælastofnun hefur unnið tillögu að endurnýjun á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm í Patreks- og Tálknafirði til næstu sextán ára.

Að því er kemur fram á vefsíðu Matvælastofnunar hefur Arctic Sea Farm verið með rekstrarleyfi fyrir 7.800 tonna hámarkslífmassa af laxi í Patreks- og Tálknafirði sem var gefið út 27. ágúst 2019 og rann út 27. ágúst 2023. Fyrirtækið sótti um endurnýjun á leyfinu 27. desember 2022.

„Eftir ákvörðun stjórnvalda um að fyrirtækin skyldu sjálf framkvæma áhættumatið lagði Arctic Sea Farm fram drög að áhættumati um siglingaöryggi fyrir Kvígindisdal og Hvannadal í Patreks- og Tálknafirði, þann 29. október 2023,“ segir á vefsíðu Matvælastofnunar, mast.is.

Stærsti hluti svæðisins utan ljósgeira frá vita

„Niðurstaða áhættumatsins er að ekki sé ásættanlegt með tilliti til siglingaöryggis að leyfa fiskeldi á Kvígindisdalur eins og það er skilgreint. Ólafsvita er leiðarmerki í Patreksfirði og gefur sjófarendum sem koma til fjarðar sem og sigla út úr firðinum. Hins vegar eru flestir hlutar fiskeldissvæðisins ekki innan hvíts ljósgeira frá vitanum. Nýting þess hluta reitsins á Kvígindisdalur í Patreksfirði sem fellur utan hvíta ljósgeirans frá Ólafsvita ógnar ekki siglingaöryggi. Með því að nota mótvægisaðgerðirnar minnkar siglingaáhættan í Patreksfirði og Tálknafirði. Varúðarsvæði upp á 100m er talið hæfilegt,“ vitnar Matvælastofnun í áhættumatið sem fyrirtækið sjálft vann.

Óvissa tafði áhættumat

Einnig segir Matvælastofnun að þar sem um sé að ræða nýjar kröfur sem gerðar voru til rekstrarleyfishafa og óljóst var hver og hvernig skyldi framkvæma áhættumat um siglingaöryggi hafi sú vinna tafist vegna eldissvæða Arctic Sea Farm í Patreks- og Tálknafirði.

„Matvælastofnun hefur unnið tillögu að endurnýjun á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm vegna fiskeldis í sjókvíum í Patreks- og Tálknafirði. Um er að ræða endurnýjun á rekstrarleyfi án breytinga þar sem hámarkslífmassi miðast við 7.800 tonn af laxi. Gildistími rekstrarleyfisins er til 16 ára,“ segir á mast.is.

Frestur til að skila inn athugasemdum til Matvælastofnunar er til 1. desember 2023.