Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er allt að verða klárt fyrir loðnuvertíð. Að sögn Geirs Sigurpáls Hlöðverssonar, rekstrarstjóra fiskiðjuversins, er allt vertíðarstarfsfólkið að mæta til starfa, þeir síðustu munu koma í dag og á morgun.

Við framleiðsluna verður unnið á þremur vöktum og eru 18 starfsmenn á hverri vakt. Flestir starfsmennirnir eru reyndir og hafa unnið hjá Síldarvinnslunni árum saman. Geir Sigurpáll segir að ávallt ríki ákveðin stemmning í upphafi loðnuvertíðar.

„Það er spenna í loftinu. Reyndar höfum við þegar unnið þrjá loðnufarma og fryst um 1.100 tonn af úrvalshængi. Við vorum til dæmis að ljúka við að vinna 800 tonn úr Barða í morgun. Nú er hrognafylling loðnunnar um 8% en frysting á Asíu getur hafist þegar 13% hrognafyllingu er náð. Japansloðnan þarf hins vegar að hafa náð 15% hrognafyllingu. Hrognavinnslan sjálf hefst hins vegar ekki fyrr en hrognin hafa náð tilteknum þroska. Það má segja að við séum alveg tilbúnir í slaginn og loðnan er falleg og í góðu standi. Nú er bara beðið eftir niðurstöðu úr loðnuleitinni sem hefur staðið yfir,“ segir Geir Sigurpáll.

Eins og fram hefur komið lauk Barði NK við að landa 800 tonnum af loðnu í fiskiðjuverið í morgun. Börkur NK hélt til loðnuveiða í gærkvöldi og Beitir NK er að sækja nýja nót til Reykjavíkur.