Fram til ársins 2032 er spáð tvöföldun í laxeldi í heiminum, þar af margföldun í landeldi. Dr. Jónas Jónasson segir skattlagningu í Noregi mögulega auka tækifærin hér á landi.

Verði öll áform íslenskra fyrirtækja um landeldi á laxi að veruleika næstu árin þá verður laxeldið orðið fjórða stoðin undir útflutningstekjum landsmanna, ásamt fiskveiðum, stóriðju og ferðaþjónustu. Þessi framtíðarsýn var mjög til umræðu á á ráðstefnunni Lagarlíf 2022, sem haldin var á Grand Hótel í Reykjavík undir lok síðustu viku.

Dr. Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Benchmark á Íslandi, var meðal fyrirlesara. Hann ræddi þessi áform öll og spáði aðeins í framtíðina.

Hann vitnaði meðal annars í úttekt frá greiningarfyrirtækinu Kontali sem hefur spáð því að árið 2032 verði framleiðslan í laxeldi komin upp í 4,254 þúsund tonn í heiminum, og hafi þá nærri tvöfaldast því nú er hún tæp 2.900 tonn. Þar af er landeldinu spáð margföldun, úr 16.000 tonnum nú upp í 365.000 tonn eftir tíu ár.

„Lágmarkið væri þá rétt rúm 200 tonn og hámarkið yfir 600 tonn, en þetta eru tölur frá í júlí og það hefur margt gerst síðan þá,“ sagði Jónas í spjalli við Fiskifréttir og vísaði þar ekki síst í stríðið í Úkraínu sem hefur haft mikil áhrif. „Það verður mjög erfitt að byggja þetta upp í Evrópu núna af því rafmagnsverðið er orðið svo hátt. Skattlagningin í Noregi setur svo hugsanlega strik í reikninginn með áform í Noregi, en þá verða kannski tækifæri í öðrum löndum, þar á meðal Íslandi. Það er botnlaus eftirspurn eftir laxi. Ég vona bara að verðið haldist hátt.“

Almennt þykir nokkuð öruggt að eftirspurnin eftir laxi í heiminum eigi eftir að vaxa mjög á næstu árum og áratugum, enda er mannkyninu enn að fjölga og þar munar ekki síst um vaxandi millistéttir í Asíu og víðar.

Góðar aðstæður

„Það eru allir brjálaðir í lax. Það er ekkert öðru vísi, og á háu verði,“ sagði Jónas um drifkraftinn á bak við þennan fyrirhugaða vöxt allan. „Það er bara lax og lax og aftur lax.“

Fiskifréttir slógu á þráðinn til Jónasar og spurðu hversu raunhæf hann teldi þessi áform öll vera. Hann sagðist hafa fulla trú á því að „eitthvað af þessum áformum verði örugglega að veruleika.“

Aðstæður hér á landi séu góðar og þar muni ekki síst um borholusjóinn á Reykjanesi.

„Þeir eru að nota borholusjó, sem ég held að sé með því hreinasta sem finnst í heiminum, og þeir nota svokallað gegnumstreymi þar sem vatnið er meðhöndlað og þeir endurnýta um 70-80% af því. Þá eru það mjög góðar aðstæður fyrir laxinn. Það er það sem við höfum gert í áratugi hjá okkur, og gengið mjög vel.“

Samherji er eitt þeirra fyrirtækja sem stefnir á mikinn vöxt í landeldi á næstu árum, eða allt að 40 þúsund tonn af laxi, bæði í Auðlindagarðinum á Reykjanesi og fyrir norðan í Öxarfirði. Landeldi ehf. í Þorlákshöfn stefnir á álíka mikið og GeoSalmo stefnir á 20 til 30 þúsund tonn, einnig í Þorlákshöfn. Þá er ILFS í Vestmannaeyjum að undirbúa landeldi á laxi upp á 10 til 20 þúsund tonn.

Jónas fagnar þarna ekki síst áformum Samherja.

„Þeir eru nú þegar með mestu reynslu í heiminum og hafa verið í þessu í áratugi, og ef þeir eru að fara að nota peningana sína í þetta þá er það fagnaðarefni. Svo er Landeldi í Þorlákshöfn komið lengst sýnist mér. GeoSalmo er að fara í heildarútboð hjá mjög þekktum stöðvarframleiðanda í Noregi, sem hefur byggt td Salmon Evolution, en það er sú stöð sem hefur eiginlega verið mesti vaxtarbroddurinn í og gengur best í Noregi sem stendur.“

90 prósent hrognanna

Sjálfur hefur Jónas áratuga langa reynslu af landeldi á Reykjanesi og hrognaframleiðslan hjá Benchmark stendur undir drjúgum hluta alls laxeldis í heiminum.

„Við erum með yfir 90% af öllum hrognum sem eru notuð í landeldi í dag í heiminum. Við erum búin að sækja um og fengið tvöföldun af öllum okkar leyfum á Reykjanesi. Framleiðslan okkar er 200 milljónir í dag en getur leikandi farið í 300-400 milljónir.“

Á ráðstefnunni Lagarlíf komu fram forsvarsmenn allra helstu fiskeldisfyrirtækja landsins, jafnt í landeldi sem sjóeldi. Einnig voru málstofur helgaðar þörungarækt og skelrækt.