Stofnað var félagið Bewi Eps sem er 51% í eigu Ósness (móðurfélags Búlandstinds) og 49% í eigu Bewi Group í Noregi. Verksmiðjan er fjárfesting upp á um tvo milljarða króna.

Ákvörðun um byggingu verksmiðjunnar var tekin árið 2020 og nú, um tveimur árum síðar, er hún því sem næst tilbúin til framleiðslu. Jón Þór Jónsson er verksmiðjustjóri. Hann vann í mörg ár hjá Tempru sem framleiðslustjóri.

Miðað við 15 þúsund tonna vinnslu á eldislaxi hjá Búlandstindi þarf að flytja  u.þ.b. 1.300 40 feta gáma frá Hafnarfirði til Djúpavogs. Á hverjum degi eru þetta 6-7 40 feta gámar.

„Það fylgir því mikið hagræði að framleiða kassana á staðnum og utanumhaldið verður umtalsvert minna. Sú staða hefur komið upp að vinnslan hefur verið uppiskroppa með umbúðir og þá hefur þurft að stöðva vinnsluna en sem betur einungis í stuttan tíma,“ segir Jón Þór.

Áætlun Búlandstinds fyrir árið 2023 er vinnsla á 30 þúsund tonnum af laxi sem er tvöföldun frá því sem er á þessu ári. Þörfin fyrir frauðplastkassa tvöfaldast því.

Sjö í tíu vélar

Verksmiðjan hefur risið á 2.800 fermetrum og búið var að koma upp fjórum vélum af sjö þegar Fiskifréttir kíktu í heimsókn. Þegar fram í sækir verða vélarnar tíu. Verksmiðjan er af nýjustu tækni og sjálfvirkni mikil sem sést á því að ráðgert er að einungis um sex starfsmenn verða i við framleiðsluna.

Framleiðslugetan er tæplega 200 kassar á hverja vél á klukkustund. Þrjár vélar verða notaðar við framleiðslu á laxakössum sem afkasta 590 kössum á klukkustund sem er svipað magn og hefur borist vinnslunni fram að þessu í einum 40 feta gám. Tvær vélar framleiða einungis lokin á kassana og þær tvær vélar sem eftir standa verða notaðar til að framleiða minni flakakassa undir hvítfisk.

  • Jón Þór Jónsson verksmiðjustjóri BeWi Eps á Djúpavogi. Mynd/gugu

„Við ætlum að reyna fyrir okkur hér á Austurlandi og bjóða fiskvinnslufyrirtækjum okkar kassa. Framleiðslan verður því ekki einungis fyrir Búlandstind heldur hvern þann sem sækist eftir vörunni,“ segir Jón Þór.

Kassarnir eru framleiddir úr aukaafurð úr olíu. Hráefnið kemur frá Finnlandi úr verksmiðju sem er í eigu Bewi. Þegar búið er að þenja plastið þannig að það er orðið að kassa er það 98% loft og búið að u.þ.b. 50 falda hráefnið í rúmmáli.

Mikil raforkunotkun

Bewi er stór framleiðandi frauðplastkassa í Noregi og víðar. Kassarnir sem framleiddir verða á Djúpavogi er þeirra hönnun. Tækniþekkingin og undirbúningur að byggingu verksmiðjunnar kemur frá Bewi Group. Velta fyrirtækisins á síðasta ári var 748 milljónir evra, rúmir 104 milljarðar ÍSK.

Verksmiðjan mun nota mikið af raforku við framleiðsluna og önnur efni en hráefnið sjálft er ekki notað til framleiðslunnar. Af framleiðslunni stafar því lítil sem engin mengun. Varminn sem verður til við framleiðsluna verður í formi 60° heits vatns sem er kælt niður og endurnýtt. Sjór er notaður til kælingarinnar en vatnið en notað til upphitunar á sjálfu húsinu og til þess að hita vatnið upp áður en það fer inn á gufuketilinn sem er 2,7 megavött. Auk þess eru uppi hugmyndir um frekari nýtingu á þessum varma. Samið hefur verið við RARIK um næga orkuafhendingu strax næsta haust.

„Við ætlum að framleiða 1,5 milljónir kassa á ári miðað við 30 þúsund tonna framleiðslu á næsta ári og stefnum að 600 þúsund kössum á þessu ári. Verksmiðjan verður prufukeyrð síðustu vikuna í júní. Við verðum fljótir að fylla upp lagerinn en svo hefst framleiðsla í september þegar farið verður að slátra af fullum krafti hjá Búlandstindi,“ segir Jón Þór.