Áhöfnin á TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, Landhelgisgæslan fór í eftirlitsflug að Reykjaneshrygg í gær. Við eftirlitið kom í ljós að 12 rússnesk skip voru að veiðum við lögsögumörkin en öll skipin voru utan íslenskrar efnahagslögsögu. Það sem var næst var um 4,3 sjómílur frá mörkunum.
Í frétt Fiskifrétta í nóvember á síðasta ári segir frá því að á síðasta ársfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC) í Lundúnum samþykktu aðildarríkin áframhaldandi bann við löndun, umskipun eða aðra þjónustu við skip sem stunda veiðar á karfa á Reykjaneshrygg, en bann við veiðunum var samþykkt 2020. Þrátt fyrir bannið hafa rússnesk skip á hverju ári stundað umfangsmiklar úthafskarfaveiðar sem vonir eru bundnar við að fari fram rétt fyrir utan 200 sjómílna lögsögunnar. Það er þó alls óvíst hvort svo sé því eftirlit með veiðunum er lítið.

380 þúsund tonn
Alls nemur úthafskarfaafli annarra þjóða en Íslendinga úr neðri stofni á tímabilinu 2011-2024 tæplega 380 þúsund tonnum. Að uppistöðu til er þetta afli frá rússneskum skipum og þau hafa ein stundað þessar veiðar frá árinu 2020.
Á ársfundi NEAFC fyrr í þessum mánuði greiddi Rússland eins og áður eitt ríkja atkvæði gegn banni við þessum veiðum og mun líklega mótmæla reglunum formlega til að vera ekki bundið af þeim. Rússar munu því að óbreyttu halda áfram veiðum á úthafskarfa úr stofni sem Alþjóðahafrannsóknaráðið telur standa mjög höllum fæti.