Á ársfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC) í Lundúnum samþykktu aðildarríkin áframhaldandi bann við löndun, umskipun eða aðra þjónustu við skip sem stunda veiðar á karfa á Reykjaneshrygg, en bann við veiðunum var samþykkt 2020. Þrátt fyrir bannið hafa rússnesk skip á hverju ári stundað umfangsmiklar úthafskarfaveiðar sem vonir eru bundnar við að fari fram rétt fyrir utan 200 sjómílna lögsögunnar. Það er þó alls óvíst hvort svo sé því eftirlit með veiðunum er lítið.
380 þúsund tonn
Alls nemur úthafskarfaafli annarra þjóða en Íslendinga úr neðri stofni á tímabilinu 2011-2024 tæplega 380 þúsund tonnum. Að uppistöðu til er þetta afli frá rússneskum skipum og þau hafa ein stundað þessar veiðar frá árinu 2020.
Á ársfundi NEAFC fyrr í þessum mánuði greiddi Rússland eins og áður eitt ríkja atkvæði gegn banni við þessum veiðum og mun líklega mótmæla reglunum formlega til að vera ekki bundið af þeim. Rússar munu því að óbreyttu halda áfram veiðum á úthafskarfa úr stofni sem Alþjóðahafrannsóknaráðið telur standa mjög höllum fæti.
Hafa veitt 102.000 tonn frá 2019
Síðastliðin fimm ár, eða eftir að bann NEAFC við veiðunum var sett, hafa Rússar veitt rúm 102 þúsund tonn úr neðri stofni. Engin leið er heldur að vita með vissu hve mikið af þeim afla hafi hugsanlega fengist innan 200 sjómílna lögsögunnar.
Íslenskum útgerðum svíður það að horfa á Rússa moka upp karfa rétt utan 200 mílnanna á sama tíma og þær mega ekki veiða sporð. „Okkur finnst blóðugt að sjá Rússa moka upp úthafskarfa hérna rétt fyrir utan 200 mílurnar, á annan tug skipa. Brim var langstærsta útgerðin í úthafskarfa og Þerney RE er kjörið í þessar veiðar. Enn þá eru veiðar á úthafskarfa bannaðar en stofninn er að styrkjast. Rússar hafa veitt þarna öll árin og verið með 10-15 skip að jafnaði. Þeir hafa verið að taka 30-40 þúsund tonn af karfa,“ sagði Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims í samtali við Fiskifréttir fyrr á þessu ári.
Vanbúnir til eftirlits
Óhætt er að segja að eftirlit sé ekki yfirgripsmikið með veiðum rússneskra skipa á þessu svæði. Í svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn Fiskifrétta segir að eftirlit með veiðum fiskiskipa á úthafskarfa út af Reykjaneshrygg hafi að mestu leyti farið fram með fjareftirliti, þ.e. gervitunglamyndum og gögnum úr fjareftirlitskerfum. „Samkvæmt okkar gögnum hafa veiðarnar ekki farið fram innan íslenskrar efnahagslögsögu. Landhelgisgæslan fór síðast til eftirlits yfir svæðið í fyrra á flugvélinni TF-SIF og þá reyndust skipin öll vera utan íslenskrar lögsögu.“
TF-SIF hefur undanfarin sumur verið leigð til Landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu, Frontex, til að sinna landamæraeftirliti í Miðjarðarhafi. Frontex hefur nú afþakkað framlag Gæslunnar sem þar með verður af sértekjum upp á um 110 milljónir kr. Alls er Gæslunni gert að afla sértekna upp á tæpar 653 milljónir kr. á næsta ári. Auk þess hefur komið í ljós að hreyflar TF-SIF þarfnast viðgerðar vegna tæringar og hefur flugvélin verið kyrrsett á Möltu frá því í vor. Áætlað er að það kosti um 350 milljónir kr. að gera við hreyfla vélarinnar. Þarna er því samtals fjárþörf upp á rúman einn milljarð kr. til Gæslunnar.