Landssamband veiðifélaga var ekki fyrr búið að lýsa áhyggjum vegna slakrar laxagengdar þar sem er sumri en fréttir berast af gríðarlegum göngum í Elliðaárnar í Reykjavík.

Fram kemur á vef leigutaka Elliðaánna, Stangaveiðifélags Reykjavíkur, í dag að 1.080 laxar hafi farið í gegn um teljara frá því á miðnætti aðfaranætur laugardags og þar af 630 bara í gær og í fyrradag.

„Samhliða hefur veiðin tekið við sér, ekki síst eftir rigningar undanfarinna daga. Í gær komu 17 laxar á land en auk þess misstu veiðimenn tugi fiska sem voru sannarlega í tökustuði,“ segir á svfr.is.

Fluguveiði og sleppiskylda hafi reynst gæfuspor

Eins og fram kom í frétt hér á vef Fiskifrétta fyrr í dag skoraði Landssamband veiðifélaga á veiðimenn að drepa ekki veidda laxa í ljósi þess hversu illa göngur hefðu skilað sér. Slíkt er reyndar ekki áhyggjuefni í Elliðaánum þar sem reglurnar eru þeir að öllu veiddum laxi skuli sleppt.

„Uppgangur Elliðaánna síðustu ár hefur verið með ólíkindum því fyrir fáeinum árum var útlitið dökkt. Fiskgengd og veiði höfðu dregist saman og áhuginn á veiðileyfum minnkað. Sú ákvörðun SVFR að breyta veiðireglum í ánni, heimila eingöngu fluguveiði og setja á sleppiskyldu var umdeild á sínum tíma en hefur reynst mikið gæfuspor,“ segir á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur.