Vinnslu- og útgerðarfyrirtækið Royal Iceland kynnti starfsemi sína og afurðir á Seafood Expo sjávarútvegssýningunni í Barcelona í síðasta mánuði. Fyrirtækið er þekkt fyrir framleiðslu á fremur óhefðbundnum sjávarafurðum út frá sjónarhóli Íslendinga, til að mynda sæbjúgum, ígulkerjahrognum, afurðum úr þorsk- og grásleppuhrognum, makríl, grjótkrabba og beitukóngi svo fátt eitt sé nefnt.
Fyrirtækið hefur ennfremur sérhæft sig í þjónustu við asíska eldhúsið með framleiðslu á masago og tobiko svo fátt eitt sé nefnt. Auk vinnslunnar í Njarðvík á fyrirtækið og rekur verksmiðju í borginni Znin í Póllandi þar sem fer fram margvísleg framleiðsla, t.a.m. úr makríl, sæbjúgum og krabba. Royal Seafood gerir út bátinn Báru SH til veiða á sæbjúgum, ígulkerjum, beitukóng og grjótkrabba.
Fyrirtækið er í föstum viðskiptum við um 40 báta á Íslandi en kaupir líka hrogn á fiskmörkuðum. Alls er unnið úr 300–500 tonnum af hrognum á ári. Mikill hluti þess fer í hrognamassa sem seldur er að stórum hluta til kavíarframleiðenda í Svíþjóð og Noregi, eins og Kalles og Mills. Framleiðslan er þó mun fjölbreyttari en svo og skiptist í tíu vöruflokka og marga undirflokka. Dæmi um afurðir er mentaiko fyrir japanskan markað, tarama smurálegg fyrir grískan markað, þorskhrognapulsur og reykt þorskhrogn.
Hráefni til verksmiðjunnar í Póllandi kemur frá Noregi, Íslandi, Perú, Skotlandi, Danmörku, Indónesía, Japan og fleiri stöðum.
Verðhækkanir á hrognum
„Við vorum að kynna hér alla okkar flóru og koma vörum okkar á framfæri. Við erum með breitt úrval viðskiptavina sem við hittum og svo bætast nýir í hópinn. Við erum með fjöldann allan af viðskiptavinum sem eru ekki allir stórir en það þarf að gefa hverjum og einum tíma,” segir Davíð Freyr Jónsson, útgerðarstjóri Royal Iceland.
Markaður fyrir asíska eldhúsið í Evrópu er stór en Davíð segir að sá markaður hafi þó dregist mikið saman vegna þess hve hátt verð hefur verið á loðnuhrognum og öðrum hrognaafurðum. Royal Iceland var í fyrsta sinn með stóran bás á Seafood Expo í fyrra og svo aftur núna. Stöðug umferð var á básinn og höfðu nokkrir sölusamningar verið gerðir fyrsta dag sýningarinnar.