Vinnslustöðvarskipin Drangavík VE og Brynjólfur VE hafa farið hvort í sex humartúra það sem af er sumri. Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfiskasviðs Vinnslustöðvarinnar, segir humarveiðina fara betur af stað en menn þorðu að vona og góðu tíðindin séu þau að smár humar sé einnig í aflanum.

Sverrir segir að miðað við ástandið fari þetta þokkalega af stað. Humarkvóti sé í sögulegri lágmarki og humarstofninn í mikilli lægð. Eins og komið hafi fram hjá Hafrannsóknastofnun hafi vantað nýliðun inn í stofninn nokkur ár í röð. Fiskveiðiárið 2010/2011 var humarkvótinn 2.100 tonn og heildaraflinn varð 2.250 tonn. Síðan hefur kvótinn minnkað ár frá ári. Á þessu ári er útgefið heildaraflamark fyrir allt landið 143 tonn og var 235 tonn á kvótaárinu 2019/2020.

Vöktunarveiðar

„Þetta er náttúrulega einungis sýninshorn enda má líta á þetta sem rannsóknarkvóta. Með veiðunum erum við fyrst og fremst að fylgjast með stofninum. Afkoman af þessum veiðum er lítil því það er sami fasti kostnaðurinn við það að sækja þetta litla magn og hann væri af margfalt meiri veiðum. Afkoman er því hvorki góð hjá fyrirtækinu né þeim sjómönnum sem stunda þessar veiðar,“ segir Sverrir.

Vinnslustöðin hefur engu að síður talað fyrir því að þessi leið sé farin í nokkurs konar vöktunarveiðum og muni standa þétt að baki henni. Þó sé það jákvætt núna að humarveiðarnar ganga betur en búist hafði verið við í upphafi vertíðar þótt aflinn sé lítill miðað við venjulegt árferði. Það hafi þó sést humar á hefðbundnu slóðum þar sem veiðarnar hefjast jafnan fyrsti úti fyrir Suðausturlandi, Hornafjarðardýpi, Breiðamerkurdýpi og Skeiðarárdýpi, og bátarnir verið að fá um og yfir 100 kíló í hali. Einnig sé það jákvætt að smár humar er í aflanum. Miðað við veiðar í fyrra sé nú heldur meira af smærri humar í aflanum.

„Maður leyfir sér að túlka þetta sem jákvæð teikn þó það liggi kannski ekki mikil vísindi á bakvið þá túlkun. En það er gott að sjá að í aflanum er smærri humar og vonandi merki þess að stofninn sé eitthvað á uppleið,“ segir Sverrir.

Markaður hrundi á sama tíma og veiðarnar

Vinnslustöðvarskipin Drangavík og Brynjólfur byrjuðu humarveiðar skömmu eftir páska og hafa, samkvæmt tölum Fiskistofu landað um 4,5 tonnum af hölum sem samsvarar um 14,6 tonnum upp úr sjó. Vinnslustöðin er því nálægt því að vera hálfnaðir með sinn kvóta á einum mánuði. Eingöngu hafa togbátar verið við humarveiðar að undanskildri Ingu P SH sem var í vetur við tilraunaveiðar í gildrur í Breiðafirði á vegum Vinnslustöðvarinnar. Báturinn er í eigu Hjartar Sigurðssonar og Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar. Sverrir segir þessar veiðar hafa gefist mjög vel og er Inga P nýlega farin af stað aftur í gildruveiðarnar og veiðir af kvóta Vinnslustöðvarinnar. Hún hefur landað einu sinni og var þá með 124 kg af humri upp úr sjó.

„Við sjáum tækifæri í því að þróa þessar veiðar enn frekar. Humar hefur í gegnum tíðina gefið mikil verðmæti af sér í útflutningi og skapað mikla atvinnu jafnt til sjós og í landi. Humarverð hefur hækkað mikið undanfarið vegna lítils framboðs. En í kjölfar heimsfaraldursins stöðvaðist humarsalan nánast algjörlega. Innanlandsmarkaðurinn er lítill en lang verðmætasti markaðurinn eru veitingahús og þá fyrst og fremst á Spáni. Það má því segja að það hafi verið lán í óláni að heimsfaraldurinn reið yfir þegar humarstofninn hér við land var í sögulegu lágmarki.“