Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, segir ekkert hægt í sögusögnum þess efnis að fyrirtækið ætli að selja togarann Þórunni Sveinsdóttur sem keyptur var fyrr á þessu ári.

Þetta kemur fram í frétt Eyjafrétta þar sem segir að heyrst hafi að þrengingar séu hjá Vinnslustöðinni, sem auk þess að kaupa Þórunni Sveinsdóttur fyrr á árinu eignaðist fyrirtækið Leo Seafood sem hyggur á landeldi á laxi í Vestmannaeyjum.

„Nei, félagið á ekki í fjárhagslegum erfiðleikum. Vinnslustöðin hefur stækkað mikið undanfarin ár með kaupum og sameiningum við önnur félög, aðallega hér í Eyjum og ávalt gengið vel að fjármagna stækkunina enda verið í góðum rekstri.  Vandinn við kaupin á Ós og Leo Seafood var að íslensku bankarnir höfðu ekki aðgengi að erlendu lánsfé til að endurlána okkur,“ segir Sigurgeir Brynjar við Eyjafréttir.

Ekki á leið í Kauphöllina

Að sögn Sigurgeirs Brynjar urðu þessir erfiðleikar bankanna til þess að frágangur kaupanna tafðist. „En kaupin á félögunum eru gengin í gegn og við erum búin að fjármagna þau,“ er haft eftir honum.

Þá hafnar Sigurgeir Brynjar orðrómi um að skrá eigi Vinnslustöðina á markað í Kauphöllinni „Það hafa engar umræður um að skrá félagið á markað átt sér stað meðal hluthafa,“ svarar hann í Eyjafréttum þar sem fjallað er nánar um þessi mál.