Sprotafyrirtækið Sidewind hlaut núna í hádeginu Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM. Hvatningarverðlaunin voru þá veitt í þriðja sinn. Verðlaunin eru í formi viðurkenningarskjals og verðlaunagripsins Sviföldunnar.

Sidewind hlaut verðlaunin fyrir vindtúrbínur sem ætlað er að virkja vindorku og draga úr olíunotkun í gámaflutningaiðnaðinum. Fyrirtækið stefnir að framleiðslu vintúrbína sem komið er fyrir í opnum gámum. Vindmyllugámarnir geta nýtt þann hliðarvind sem annars færi til spillis á hafi úti, til rafmagnsframleiðslu.

Aðferðin getur minnkað mengun frá flutningaskipum töluvert en Sidewind telur að með aðferðinni verði hægt að framleiða 5-20% af þeirri orku sem skip þurfa hverju sinni. Tíu metra löng frumgerð í 40 feta gám hefur nú þegar verið gerð og prófanir á henni fara að hefjast. Sidewind er ungt sprotafyrirtæki með spennandi verkefni sem er að taka á sig mynd sem gæti orðið mjög áhugaverð.