„Við erum að horfa í bæði skreið og harðfisk, hvernig þetta er unnið og notað og í siði og venjur,“ segir Dóra Svavarsdóttir, formaður Slow Food Reykjavík, sem tekur nú þátt í fjölþjóðlegu verkefni sem miðar að því að hertur fiskur verði tekinn á heimsminjaskrá yfir svokallaðan óáþreifanlegan menningararf.
Dóra segir að Slow Food Reykjavík hafi borist erindi frá Slow Food Bergen sem hafi verið lagt af stað í að sækja um að komast á þennan lista og vilji fá Ísland með í verkefnið. Hún bendir á að Slow Food séu alþjóðasamtök í 160 löndum.
Taka saman yfirlit um allt sem tengist skreið og harðfiski
„Norðmennirnir leiða verkefnið og hafa fengið Ítala og Nígeríumenn með sér. Líklega verða Þjóðverjar einnig með,“ segir Dóra. Samar í Noregi tengist umsókninni einnig.
Hér á Íslandi þarf að sögn Dóru að taka saman yfirlit yfir allt sem snýr að verkun harðfisks og skreiðar, neyslu þessara afurða og hefðir sem þeim tengjast. „Síðan er þessu fylgt eftir til Ítalíu og Nígeríu þar sem þetta er hefð, hvernig þetta er borðað og notað,“ segir hún.
Fágætt samstarf
Samstarf landa í ólíkum heimsálfum í umsóknum af þessu mun vera fátítt.
„Það eru oft tvö lönd sem standa að umsókn. Þetta er mjög spennandi að reyna að ná svona allri keðjunni. Það þýðir ekki að framleiða eitthvað ef það er ekki notað og þess vegna er það partur af þessu,“ segir Dóra.
Að sögn Dóru gefur UNESCO sér átján mánuði til að meta umsóknir af þessu tagi eftir að þær berast.
„Norðmennirnir byrjuðu fyrir ári síðan og eru búnir að bera hitann og þungann af verkinu. Við stefnum að því að koma umsókninni inn fyrir jól,“ segir Dóra sem kveðst bjartsýn á að verkefnið hljóti náð fyrir augum heimsminjaskrárinnar.
Varðveita kunnáttu og hefðir
Með skráningunni segir Dóra saltfiskinn og harðfiskinn og skreiðina, og allt í kringum þessar afurðir fá mikilvæga alþjóðlega viðurkenningu. Þessi vinnsluaðferð og hugmyndafræði verði þá örugglega varðveitt. „Það er alltaf hætta með eitthvað svona sem er orðið fágætt að það hreinlega týnist og eftir einhverja áratugi verður enginn sem raunverulega kann að gera þetta,“ segir hún.
Áhyggjur af þessu séu ekki ástæðulausar. „Sérstaklega með þessar gömlu aðferðir, hjallaþurrkunina og það allt. Til dæmis er sennilega mest af harðfiski hér á landi í dag klefaþurrkaður,“ segir Dóra.
Íslenska sundhefðin á skránni
En málið snúist einnig um hvernig harðfiskur sé borðaður.
„Við Íslendingar berjum hann og borðum hann hráan og það er óvenjulegt og til dæmis ólíkt norskum venjum, þótt það þekkist einnig þar í landi. Á Ítalíu er hann lagður í bleyti og síðan er steiktur laukur og fiskurinn bakaður í mjólk og fullt af parmesan,“ lýsir Dóra aðferðunum þar suður frá. „Þetta sýnir hversu það er mikilvægt að við drögum þetta fram í dagsljósið og sýnum að það er hægt að nota þetta hráefni á fjölbreyttari hátt en við erum að gera.“
Þótt harðfiskur og skreið séu vitanlega áþreifanlegar vörur þá er með tilliti til skráningarinnar verið að tala um þær hefðir og aðferðir sem hafi óáþreifanlegt gildi. Dóra bendir á til skýringar að það að fara í sund á Íslandi hafi fyrr á þessu ári verið sett á þennan lista og þar með skilgreint sem óáþreifanlegur menningararfur þar sem þessi mikla sundlaugahefð hér þyki einstök.
Barin eins og harðfiskur
„Þetta snýst ekki aðeins um vöruna sjálfa heldur líka og enn fremur um neyslu og siði, jafnvel tungumálið, við tölum til dæmis um að „berja einhvern eins og harðfisk“. Það er verið að halda utan um hvað þetta hefur þýtt fyrir okkur í menningarlegu samhengi,“ segir Dóra og undirstrikar að tilgangurinn sé ekki hrein markaðsstarfsemi.
„Engu að síður gæti skráningin stutt við atvinnustarfsemi og óbeint gagnast við markaðssetningu, aukið sýnileika og annað slíkt til framtíðar,“ segir hún.
Skreið áfram til Nígeríu
Framleiðsla á skreið hérlendis er ekki nándar nærri eins mikil og á árum áður. „Við erum komin stutt á veg að skrásetja þetta en það fyrsta sem við sjáum er að þetta eru eiginlega bara hausar og dálkar sem nú er verið að þurrka, það er lítið verið að þurrka heilan fisk,“ segir Dóra. Langmest fari til Nígeríu sem fyrr.
„Eftir Bíafrastríðið fór skreið frá Íslandi og Noregi sem þróunaraðstoð. Þá byrjar þessi útflutningur og þessi tenging til Afríku. En þar var auðvitað þegar fyrir sú hefð að borða þurrkaðan fisk þannig að þau þekktu svipaðar vörur og gátu nýtt sér skreiðina,“ segir Dóra.
Auglýsir eftir framleiðendum
Sem fyrr segir er stefnt að því að ganga frá umsókninni fyrir jól. Dóra er nú að safna saman sem mestum upplýsingum varðandi skreið og harðfisk hér heima. „Okkur vantar að komast í samband við sem flesta framleiðendur, litla og stóra. Í framhaldinu þurfum við líka að fá sögur og stuðningsyfirlýsingar frá fólki úr félagasamtökum og öðrum sem borða harðfisk, þekkja hann og eiga einhverjar skemmtilegar sögur tengdar harðfiski og skreið. Þetta er hluti sem þarf að fylgja með, það þarf að sýna fram á að þetta sé partur af lífi einhverra á þessu landi,“ segir Dóra sem hefur fulla trú á að markmiðinu að skrá skreið og harðfisk á lista Unesco.
„Ég er óforbetranlega mikil bjartsýnismanneskja, þetta gengur upp,“ segir Dóra. Þeir sem geti lagt verkefninu lið með upplýsingum geti sett sig í samband í gegnum netfangið [email protected] eða á Facebook-síðu Slow Food Reykjavík.