Vilhelm Þorsteinsson EA kom með 2.115 tonn af kolmunna til löndunar í Neskaupstað í gærkvöldi. Að löndun lokinni hélt skipið á ný á kolmunnamiðin í færeysku lögsögunni í morgun.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Guðmund Þ. Jónsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig veiðst hefði. „Það veiddist vel. Við tókum fjögur hol á miðunum austan við Færeyjar og stoppuðum einungis í sólarhring á miðunum. Það var dregið í þrjá til átta tíma. Aflinn var á bilinu 450-600 tonn í holi. Það getur enginn kvartað þegar aflabrögðin eru slík. Þegar við komum á miðin vorum við þar einir ásamt grænlenska skipinu Polar Ammassak en eftir að grænlenska skipið fór í land vorum við þarna aleinir. Nú er hins vegar skipum að fjölga á miðunum og Síldarvinnsluskipin Barði og Beitir eru komin þarna. Við fórum í land vegna þess að það gerði skítaveður, annars hefðum við fyllt á skömmum tíma en skipið tekur 3.200 tonn. Mér líst býsna vel á framhaldið á veiðunum svo fremi að veðrið verði til friðs,” segir Guðmundur.

Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir að sér lítist vel á kolmunnann úr Vilhelm Þorsteinssyni. „Við erum núna að klára að vinna síld í verksmiðjunni en strax í kjölfarið hefst vinnsla á kolmunnanum. Kolmunninn úr Vilhelm er örugglega mjög gott hráefni. Hann fékkst í fáum holum á stuttum tíma þannig að gæðin eru örugglega til staðar. Mér líst afar vel á kolmunnavinnsluna sem framundan er,” segir Hafþór.