Víkingur AK landaði á þriðjudag um 1.500 tonnum, mest makríl en blönduðum síld, sem fékkst í Smugunni. Skipið var á leið til hafnar í Vopnafirði þegar slegið var á þráðinn til Róberts Hafliðasonar skipstjóra á Víkingi AK.

„Þetta var um 50 klukkustunda stím úr Smugunni. Við fórum út þann 27. júlí og stímið á miðin og aftur heim tók því um fjóra sólarhringa. Við náðum því ekki nema rúmum 30 klukkustundum á miðunum. Þar er allur íslenski uppsjávarflotinn. Svo voru þarna líka Rússar og allur færeyski flotinn líka,“ segir Róbert.

Hann segir að staðan á miðunum hafi verið ágæt þegar þeir voru þar. Þeir voru með 300-400 tonn í holi og drógu ekki nema 3-4 tíma í senn.

„En  ég heyri að það er rólegra yfir þessu núna og síld farin að blandast þessu meira. Þetta var hreinn makríll í fyrstu þremur holunum sem gáfu okkur tæp 1.100 tonn. Svo var aðeins síldarblandað í síðustu tveimur holunum. Við erum með um 1.500 tonn og ætli það sé ekki um 170 tonn af því síld.“

Róbert segir þetta fallegan makríl, um 450 gramma meðalþyngd. En það er langt að fara eftir honum og í raun stuttur tími á miðunum. Uppsjávarskip Brims hafa unnið saman þegar þannig hefur staðið á. Nú var staðan hins vegar sú að veiðin var búin að vera mikil og Venus NS og Svanur RE voru að landa og á landleið þegar Víkingur AK kom á miðin.

Róbert Hafliðason skipstjóri. Mynd/aðsend.
Róbert Hafliðason skipstjóri. Mynd/aðsend.

Þyrfti fjögur skip

„Þetta er svo langt að fara að það þyrftu að vera fjögur skip til að þetta virki betur. Ég man ekki eftir að hafa sótt makrílinn svo norðarlega áður. Við enduðum á 72,50 breiddargráðu og tiltölulega austarlega líka. Nyrsti oddi Noregs er á 71,06° og Svalbarði á 74,25°. Sjórinn þarna var um 9,2° og stærri makríll virðist kunna vel við sig í þeim hita. Það var einhver áta í honum en hann æðir þarna um. Um daginn var veiði þarna í nokkra daga og það þurfti að elta hann 60 sjómílur í norður á sólarhring. Ef maður lendir í því að kasta of sunnarlega getur það kostað nokkra klukkutíma að ná að elta hann uppi aftur.“

Róbert minnist þess þegar mönnum þótti það alveg ferlegt fyrir nokkrum árum að þurfa að sigla af Vestfjarðarmiðum eftir makrílveiðar til Vopnafjarðar. Þeim hafi þótt stímið alltof langt. Í dag mættu menn prísa sig sæla með það. En þetta er veruleikinn og menn bara takast á við hann.

Hitt gengið á Víkingi AK landaði 27. júlí um 900 tonnum af makríl sem fékkst að talsverðu leyti í íslensku lögsögunni. Albert Sveinsson skipstjóri segir að í fyrsta túrnum hafi verið lítil veiði í Smugunni. Fregnir hafi borist af makríl í Rósagarðinum og þangað var haldið.

„Þarna var stór og góður fiskur en bara ekki nógu mikið af honum upp á veiði að gera. Við tókum þarna þó tæp 1.000 tonn. Það var síldarblandað en þegar við komum í land vorum við með meira af makríl en síld. Það er makríll í íslensku lögsögunni en þetta snýst bara um að halda uppi einhverri veiði,“ segir Albert.