Hilmar F. Thorarensen er fæddur 1940 og ættaður frá Gjögri, sonur Karls F. og Regínu Thorarensen sem lengi var fréttaritari Morgunblaðsins. Hilmar starfaði lengst af sem bankastarfsmaður en hætti þeim störfum fyrir aldurs sakir árið 2010. Það ár hófust strandveiðar í fyrsta sinn og Hilmar hefur ekki látið sig vanta á eina vertíð nema árið 2012 þegar báturinn fór í allsherjar viðhald.

Lengst af réri Hilmar frá sinni einkahöfn á Gjögri, Karlshöfn, sem hann og faðir hans gerðu, en flutti svo bátinn sinn, Hönnu RE 49, til Reykjavíkur í fyrra þaðan sem hann gerir út núna.

Gerður út frá Reykjavík í hálfa öld

Hanna RE 49 er elsti og minnsti bátur landsins með fiskveiðiheimild, smíðaður árið 1899 í Noregi. Hann var í eigu Guðmundar Jónssonar frá Helgastöðum í Reykjavík og var gerður þaðan út í um 50 ár. Þegar báturinn hafði þjónað sínu hlutverki var hann dreginn á land í Örfirisey og var faðir Hilmars fenginn til að taka vélina úr honum og setja í annan bát á Gjögri. Launin fyrir þá vinnu var Hanna sjálf. Karl gerði bátinn upp og hækkaði hann m.a. um eitt borð og setti á hann stýrihús. Karli var mjög annt um þennan bát alla tíð. Lengst af var Hanna því í eigu Karls og var hún gerð út frá Ströndum í yfir sex áratugi. Réri Hilmar oft með föður sínum og einn eftir að hann lést 1996.

Að jafnaði 10-12 tonn

Hilmar fékk svo Hafliða Má Aðalsteinsson bátasmíðameistara í lið með sér við allsherjar uppgerð á bátnum árið 2012. Um leið var skipt um vél í honum. Hilmar segir að nánast öllu hafi verið skipt út nema einhverjum 60 cm á skutnum auk þess sem annað og þriðja borð í bátnum eru upprunaleg sem og nokkrir bútar af böndunum.

Hilmar F. Thorarensen leit við á ritstjórnarskrifstofu Fiskifrétta í vikunni.
Hilmar F. Thorarensen leit við á ritstjórnarskrifstofu Fiskifrétta í vikunni.

Hilmar segir eitthvað draga sig að sjónum og hann hafi af strandveiðunum mikla ánægju. Hann er vaknaður fyrir allar aldir og hefur aldrei þurft á vekjaraklukku að halda. Í síðasta róðri í síðustu viku var hann lagður af stað á miðin Suðurhraun, um 10 mílur frá Reykjavík, rúmlega klukkan þrjú um nóttina. Í fyrra fiskaði hann um sex tonn en að jafnaði hefur hann veitt á bilinu 10-12 tonn á strandveiðivertíðunum á tvær sænskar rafmagnsrúllur sem eru léttar og meðfærilegar. Það sem af er þessari vertíð hefur hann veitt 1.820 kg í sex róðrum. Aflann selur hann allan á fiskmarkaðnum í Reykjavík.

Hilmar F. Thorarensen er fæddur 1940 og ættaður frá Gjögri, sonur Karls F. og Regínu Thorarensen sem lengi var fréttaritari Morgunblaðsins. Hilmar starfaði lengst af sem bankastarfsmaður en hætti þeim störfum fyrir aldurs sakir árið 2010. Það ár hófust strandveiðar í fyrsta sinn og Hilmar hefur ekki látið sig vanta á eina vertíð nema árið 2012 þegar báturinn fór í allsherjar viðhald.

Lengst af réri Hilmar frá sinni einkahöfn á Gjögri, Karlshöfn, sem hann og faðir hans gerðu, en flutti svo bátinn sinn, Hönnu RE 49, til Reykjavíkur í fyrra þaðan sem hann gerir út núna.

Gerður út frá Reykjavík í hálfa öld

Hanna RE 49 er elsti og minnsti bátur landsins með fiskveiðiheimild, smíðaður árið 1899 í Noregi. Hann var í eigu Guðmundar Jónssonar frá Helgastöðum í Reykjavík og var gerður þaðan út í um 50 ár. Þegar báturinn hafði þjónað sínu hlutverki var hann dreginn á land í Örfirisey og var faðir Hilmars fenginn til að taka vélina úr honum og setja í annan bát á Gjögri. Launin fyrir þá vinnu var Hanna sjálf. Karl gerði bátinn upp og hækkaði hann m.a. um eitt borð og setti á hann stýrihús. Karli var mjög annt um þennan bát alla tíð. Lengst af var Hanna því í eigu Karls og var hún gerð út frá Ströndum í yfir sex áratugi. Réri Hilmar oft með föður sínum og einn eftir að hann lést 1996.

Að jafnaði 10-12 tonn

Hilmar fékk svo Hafliða Má Aðalsteinsson bátasmíðameistara í lið með sér við allsherjar uppgerð á bátnum árið 2012. Um leið var skipt um vél í honum. Hilmar segir að nánast öllu hafi verið skipt út nema einhverjum 60 cm á skutnum auk þess sem annað og þriðja borð í bátnum eru upprunaleg sem og nokkrir bútar af böndunum.

Hilmar F. Thorarensen leit við á ritstjórnarskrifstofu Fiskifrétta í vikunni.
Hilmar F. Thorarensen leit við á ritstjórnarskrifstofu Fiskifrétta í vikunni.

Hilmar segir eitthvað draga sig að sjónum og hann hafi af strandveiðunum mikla ánægju. Hann er vaknaður fyrir allar aldir og hefur aldrei þurft á vekjaraklukku að halda. Í síðasta róðri í síðustu viku var hann lagður af stað á miðin Suðurhraun, um 10 mílur frá Reykjavík, rúmlega klukkan þrjú um nóttina. Í fyrra fiskaði hann um sex tonn en að jafnaði hefur hann veitt á bilinu 10-12 tonn á strandveiðivertíðunum á tvær sænskar rafmagnsrúllur sem eru léttar og meðfærilegar. Það sem af er þessari vertíð hefur hann veitt 1.820 kg í sex róðrum. Aflann selur hann allan á fiskmarkaðnum í Reykjavík.