Jarðhræringar á Reykjanesi hafa haft talsverð áhrif á starfsemi Haustaks sem hefur verið einn af stærri skreiðarframleiðendum landsins. Þannig bárust fyrirtækinu ekki nema um 8 þúsund tonn af hausum og hryggjum á síðasta ári en í eðlilegu ári vinnur fyrirtækið úr um 12 þúsund tonnum af hráefni. Þá er efnahagsástandið í Nígeríu, þangað sem öll framleiðslan fer, viðkvæmt.

Víkingur Þórir Víkingsson, framkvæmdastjóri fiskþurrkunarinnar Haustaks, segir bærilegan gang í starfseminni þrátt fyrir allt. Þeir hafi sloppið við rafmagnsleysi og vatnsskort sem háði mörgum öðrum fyrirtækjum í jarðhræringunum en á tímabili var aðgengi að verksmiðjunni takmarkað. Mestu áhrifin á starfsemina var þegar fiskvinnsla lagðist niður í Grindavík. Þar með hafi verið klippt á hráefnisaðföng.
Færri starfsmenn
„Þetta var skrítið ár í fyrra vegna þessa. En auk þess er minni kvóti til að moða úr sem leiðir til minna framboðs af hráefni en við byggjum alla okkar vinnslu á hráefni úr afla sem er landað í Grindavík. Í fyrra tókum við á móti 7.500 til 8.000 tonnum. En í venjulegu ári höfum við verið að taka á móti 12-13 þúsund tonnum,“ segir Víkingur Þórir sem verið hefur í þessum bransa allt frá árinu 1999.
Miklum hráefnisskorti þarf að bregðast við með einhverjum hætti í rekstri fyrirtækis eins og Haustaks. Mönnunarmálin leystust á þann hátt að margir starfsmenn Haustaks af erlendu bergi brotnir sem bjuggu í Grindavík, fluttust til síns heima í jarðhræringunum. Ekki þurfti því að grípa til uppsagna en ekki var ráðinn mannskapur í stað þeirra sem hættu. Við þetta fækkaði talsvert í starfsmannahópnum.

© gugu (.)
„Við bitum á jaxlinn og reyndum að halda sjó. Þrátt fyrir minni framleiðslu á síðasta ári hefur það ekki komið niður á viðskiptasamböndum. Nígería hefur verið í talsverðu basli líka. Við reynum að sjá jákvæðu hliðarnar á þessu og segja má að með minni framleiðslu höfum við náð aðeins að svelta markaðinn. Eftirspurnin er meiri en framboðið og við vonum að það leiði til verðhækkana á vörunni.“
Hrikalegar gjaldmiðilssveiflur
Þó er óvíst hver þróunin verður því Nígeríumenn glíma við gríðarlega sveiflukennt efnahagsástand. Fyrir örfáum misserum vakti það mikla athygli innan þessa geira þegar gjaldmiðillinn í landinu fór í 500 nærur gegn einum dollara og töldu þá margir að toppnum væri náð. „Á síðasta ári fór næran í nærri 2.000 á móti dollar. Núna í síðustu viku var hún í 1.580 á móti dollar. En viðskiptin ganga sinn gang sem er til marks um ótrúlega aðlögunarhæfni manna í þessum heimshluta.“
Þrátt fyrir þetta hefur Haustak náð að hækka sitt afurðaverð um 10% í ljósi lítils framboðs og meiri eftirspurnar. Á sama tíma sveiflast gengi nærunnar um 40-50%.
„Ég býst við því að það verði dálítill darraðardans á þessum markaði á þessu ári en miðað við spár gæti þó ræst úr efnahagsástandinu í landinu. En allar spár varðandi efnahagsástand í Nígeríu eru mjög óvissar.“
Víkingur segir að Haustak hafi sniðið sér stakk eftir vexti í takt við minna hráefnisframboð. Þó býst hann við að unnið verði úr um það bil 10 þúsund tonnum á þessu ári. Það geti þó breyst snarlega enda óvissan hvað varðar jarðhræringarnar mikil. „Jafnvel þótt Haustak sé ekki innan Grindavíkur er öll okkar lífæð þar. Við fáum ekki hráefni annars staðar frá,“ segir Víkingur Þórir.