Útflutningsverðmæti yfirstandandi loðnuvertíðar nálgast um 40 milljarða króna. Þetta er mat Friðriks Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóra Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Í samanburði skilaði tífalt minni loðnuvertíð, 70 þúsund tonna vertíð, í fyrra rúmlega 20 milljörðum króna.
Minna hefur tekist að framleiða í verðmætari afurðaflokka á þessari vertíð, eins og hrogn og frysta kvenloðnu, en vonir stóðu til. Afurðaverð er þó í hæstu hæðum og á það ekki síst við um mjöl og lýsi.
„Það er erfitt að leggja mat á þetta núna. Það þarf að koma eitthvað meira; vestanganga eða meira inn að norðan- eða austanverðu til að breyta stöðunni hvað varðar hrognavinnslu. Menn köstuðu aðeins á hrygnda loðnu í síðustu viku vestan við Snæfellsnes. En það sem er öðruvísi núna en oft áður er að skipin hafa ekki getað fylgt stórum torfum alla leið upp að hrygningarslóð. Núna virðist loðnan vera víðar og meira í peðrum. Hún kom reyndar þannig inn í byrjun vertíðar á þessum svæðum úti fyrir Norðausturlandi þar sem mátti trolla. Hún kom inn á svæðið og var farin út af svæðinu jafnharðan,“ segir Friðrik Mar.
Hann segir loðnuvertíðina að þessu leyti óvenjulega og sumir vilji meina að veiðar með trolli geti haft þessi áhrif á göngurnar. Fyrir því séu þó engar ítarlegar rannsóknir hvaða skaða þær geti valdið en full ástæða sé til þess að þetta sé rannsakað.
Óvíst hvort kvótinn náist
Friðrik Mar segir vissulega „lokalegt“ yfir vertíðinni og lítið hafi veiðst að ráði frá 8. þessa mánaðar. Loðnuvertíð hafi samt aldrei lokið svo snemma og því sé of snemmt er að lýsa yfir lokum vertíðar strax. Veiðst hafa um 470 þúsund tonn á vertíðinni. Enn eru því óveidd um 215 þúsund tonn þegar talinn er með 52 þúsund tonna viðbót af þeim kvóta sem Norðmönnum tókst ekki að veiða.
„Það er ekki hægt að segja til um það hvort náist að veiða allan kvótann. En margt þarf að gerast til að svo verði. Vertíðin gæti til dæmis staðið alveg fram í apríl ef það kæmi vestanganga. Það hefur sjaldan gerst síðastliðin ár og þegar það gerist stoppar sú loðna stutt við vestur af Vestfjörðum sem er ekki besta veiðisvæðið vegna mikilla strauma.“
Í síðustu viku voru nokkur loðnuskip við veiðar út af Látrabjargi og lýstu sumir því þannig að nótin færi vart niður úr yfirborði sjávar vegna mikilla strauma. Færeyska skipið Þrándur í Götu sem veiðir fyrir Loðnuvinnsluna, leitaði loðnu í Húnaflóa í gær og varð einskis var. Friðrik Mar segir að árið 2018 hafi Hoffellið verið einskipa að veiðum í Húnaflóanum og landaði þá síðast 23. mars það ár loðnu sem var rétt að ná hrognaþorska fyrir Japansmarkað. Ekkert er vitað um göngumynstur þeirrar loðnu.
„Það er allt til í þessu og það er einmitt það sem gerir þetta skemmtilegt,“ segir Friðrik Mar.
6.000 tonn af hrognum
Þegar þetta er skrifað höfðu verið framleidd um sex þúsund tonn af loðnuhrognum sem þykir lítið miðað við umfang veiðanna og til samanburðar voru framleidd hátt í 8 þúsund tonn á litlu loðnuvertíðinni í fyrra. Markaðir fyrir loðnuhrogn geta í venjulegu árferði tekið við allt að 12-15 þúsund tonnum svo ljóst er að ekki verður vandamál að selja afurðirnar. Þá hafa verið framleidd á milli 11-12 þúsund tonn af kvenloðnu sem er mun minna magn en á loðnuvertíðinni í fyrra þegar framleitt var næstum þrefalt það magn. Hafa ber í huga að þrálát ótíð hefur einkennt yfirstandandi loðnuvertíð og hefur veðurfarið haft talsverð áhrif á samsetningu afurðanna.

- Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði
Friðrik Mar segir það mjög bagalegt að ekki hafi verið framleitt meira af hrognum en raun ber vitni. Þó sé ekki öll nótt úti enn þá. Verð á loðnuhrognum hafi verið í sögulegum hæðum í fyrra. Allt stefni í að verðið verði gott einnig í vetur verði ekki framleitt þeim mun meira það sem eftir er vertíðar. Það sé bitist um það sem nú er framleitt og markaðurinn er alls ekki einungis Japan eins og var áður fyrr. Þangað fari ekki nema 3-4 þúsund tonn að jafnaði en annað fari til Suður-Kóreu, Tævan, Kína, Tæland, Indónesíu og lítið eitt til Evrópulanda. Markaðurinn fyrir loðnuhrogn hefur því stækkað mjög mikið. Það sem hefur verið framleitt núna af hrognum er því einungis um það bil helmingurinn af því sem erlendir markaðir taka við að jafnaði.
Friðrik Mar segir að loðnukaupendur hafi sumir staðið í þeirri meiningu að á þessari stóru loðnuvertíð sem nú stendur yfir yrðu framleidd 40-50 þúsund tonn af kvenloðnu. Margir átti sig ekki á því hve þröngur tímaramminn er til veiða. Áta í fiskinum og veður spila stóran þátt í því hvernig gengur.
„Við höfum glugga opinn í fjórtán daga til að framleiða kvenloðnu og svo má draga bræludagana frá þeim tíma. Sama er með hrognin. Í allt eru þetta kannski átta dagar núna á þessari vertíð. En þetta gerir loðnuvertíðir svo spennandi. Það er ekkert hægt að sjá fram í tímann hvað veiðarnar varðar. Menn þurfa bara að vera tilbúnir og á tánum.“
Keyrt á olíu
Friðrik Mar segir stöðuna á mörkuðum fyrir mjöl og lýsi góða. Enn þá hafi ekki borist inn á þá afurðir frá Suður-Ameríku. Á heildina litið séu menn mjög sáttir með vertíðina þótt meira hefði mátt framleiða af hrognum og kvenloðnu.
Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði hefur á þessari vertíð unnið úr um 45 þúsund tonnum af loðnu sem Hoffellið og þrjú færeysk skip hafa veitt auk þess sem lítið eitt af var keypt af afla norskra skipa. Fyrir vertíðina voru sett upp ný eimingartæki við verksmiðju Loðnuvinnslunnar sem juku afköstin um helming. Vegna skerðinga á afhendingu á raforku hefur Loðnuvinnslan eins og aðrar fiskmjölsverksmiðjur á Austurlandi neyðst til keyra verksmiðjur sínar á innfluttu jarðefnaeldsneyti.

- Fyrir vertíðina voru sett upp ný eimingartæki við verksmiðju Loðnuvinnslunnar sem juku afköstin um helming. Tækin komu frá vélsmiðjunni Héðni í Hafnarfirði. Mynd/Ingimar Óskarsson
„Verksmiðjurnar fjárfestu allar fyrir nokkrum árum í orkuskiptum en nú þarf að keyra þær á olíu. Fiskmjölsverksmiðjurnar á Austurlandi brenna olíu úr tíu tankbílum á hverjum degi meðan á vertíð stendur. Á sama tíma og raforka er skert til fiskmjölsverksmiðja á Austurlandi selur Landvirkjun raforku til fyrirtækja sem stunda meðal annars myntgröft. Orkan sem fer í það er jafnmikil og öll heimilin í landinu nota. Það er líka sama magn af orku og allar fiskmjölsverksmiðjurnar nota þegar þær eru í gangi. Á sama tíma og raforka er seld til myntgrafara voru heimili á Vestfjörðum kynt með olíu. Þetta er skandall í stjórnun Landsvirkjunar. Skerðingar til fiskmjölsverksmiðjanna á Austurlandi hafa leitt til 70-80% hækkunar orkukostnaðar þeirra.“