Á þriðja tug báta eru byrjaðir á grásleppuveiðum þrátt fyrir óvssu um markaði. Feðgar á Ólafsfirði ákváðu að byrja strax áður en verðin lækki.
Nokkrir bátar eru þegar farnir af stað á grásleppuveiðar, enda þótt útlitið fyrir vertíðina sé ekki sérlega bjart.
„Maður verður bara að taka á stóra sínum og láta vaða. Svo fer þetta bara eins og það fer,“ segir Ásgeir Frímannsson á Ólafsfirði, æðruleysið uppmálað þrátt fyrir horfurnar. Hann segir óvissuna töluverða, „og svo er þetta bara óspennandi einhvern veginn líka.“
Fiskifréttir ræddu við hann á þriðjudag, og þá var hann búinn að fara í einn róður á bát sínum, Blíðfara ÓF, ásamt föður sínum Frímanni Ingólfssyni.
„Þetta er frekar í rólegri kantinum. Við erum búnir að vitja einu sinni og þetta voru 900 kíló af grásleppu eftir nóttina. En það var mikill straumur líka, sem hefur spilað inn í.“
Hann segir að þeir feðgar hafi ákveðið að vera ekkert að bíða, heldur byrja strax.
„Við látum þetta á markað í staðinn fyrir að bíða þangað til verðin fara að lækka. Ég gerði þetta í fyrra líka.“
Stutt á miðin
Verðið segir hann vera í lægri kantinum, 150 krónur.
„En ég fékk 400 krónur núna, og það rífur þetta aðeins upp. Þetta kostar alltaf að leggja netin og halda úti úthaldi. Það er nú svo.“
Hann segir ekki verra að stutt sé á miðin, rétt utan við Ólafsfjörð.
„Við erum bara korter hérna út. Þetta er bara við bæjarhurðina hjá okkur.“
Fyrir utan grásleppuna fer hann einnig á strandveiðar í sumar og hefur verið á þorskanetum líka.
Á Ólafsfirði eru þrír bátar byrjaðir á grásleppu, en Ásgeir segir að einn og jafnvel tveir aðrir séu líklegir til að skella sér líka. Alls eru á þriðja tug báta byrjaðir eða komnir í startholurnar.
Varfærnir
Landssamband smábátaeigenda (LS) segir kaupendur grásleppuhrogna vera afar varfærna í upphafi vertíðar „hvað varðar magn og verð sem þeir munu bjóða. Upplýsingar benda til að vel hafi gengið að selja kavíarinn á sl. ári miðað við aðstæður og verð nokkuð stöðugt. Á síðasta ári varð smávægileg lækkun milli ára, en verð kavíars þó hærra en á árinu 2019.“
Útflutningsverðmæti hrogna hafi þó engan veginn haldið verðgildi sínu eins og kavíarinn. Hrognaverð á síðasta ári hafi verið það lægsta sem sést hafði í áratug.
„Það endurspeglar verð til sjómanna sem segja að á vertíðinni sem í hönd fer verði að koma til verðhækkun til að tryggja veiðar.“
Hærra verð
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir reyndar að núna í blábyrjun vertíðarninar hafi mönnum verið að bjóðast mun betra verð en í fyrra.
„Það eitt segir okkur að kaupendur hljóta að vera tilbúnir til að borga hærra verð. En þeir eru eins og aðrir að spá í hvað kemur mikið af landi, þannig að þeir geti staðið við að sinna sínum viðskiptavinum.“
Ráðuneytið hefur fallist á ósk LS um að grásleppusjómenn þurfi ekki að koma með hveljuna í land, rétt eins og í fyrra, enda er enginn markaður fyrir frosna grásleppu. Kínverjar hafa keypt frosna grásleppu síðan árið 2013, en í ár hafa þeir ekki sýnt áhuga á þeim kaupum.
„Mest af því sem flutt var til þeirra á síðustu tveimur árum er enn í frystigeymslum og bíður þess að Covid-19 verði komið á það stig að dreifing verið heimiluð,“ segir á heimasíðu LS.