Útlit er fyrir að það takist að veiða allan útgefinn loðnukvóta á vertíðinni sem nú er á síðustu lokametrunum. 27. febrúar síðastliðinn undirritaði matvælaráðherra reglugerð um að endanlegt aflamark í loðnu yrði tæp 330 þúsund tonn og þótt viðbót upp á rúm 147 þúsund tonn kæmi þegar langt var liðið á veiðitímabilið virðist útlit fyrir að kvótinn náist allur. Gunnþór Ingason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir loðnuvertíðina hafa verið með besta móti. Hann reiknar með að hún skili verðmætum upp á 42-45 milljarða króna.

„Það eru allir í síðustu sleikjunum núna,“ segir Gunnþór um loðnuvertíð sem er nú við það að klárast. „Þetta hefur verið ótrúlega góð vertíð og sérstök að því leytinu til að það hefur verið mjög góð veiði og mikil loðna á ferðinni. Við erum búnir að vera í mokveiði framundir 20. mars og veðrið hefur líka leikið við okkur. Samsetningin á loðnunni vinnslulega séð hefur líka verið hagstæð og ég held að þetta hefði ekki getað þróast á mikið betri veg,“ segir Gunnþór.

Um 20 þúsund tonn af hrognum

Hann telur nánast fullvíst að það náist að veiða allan kvótann því síðastliðinn þriðjudag hafi ekki verið eftir nema 10-15 þúsund tonn og var þá fjöldi loðnuskipa við veiðar suður af Snæfellsnesi. Á þriðjudagsmorgun var til að mynda landað hátt í 8 þúsund tonnum í Neskaupstað svo segja má að það gangi hratt á það sem eftir er af kvótanum.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Búið er að framleiða mikið magn af hrognum á þessari vertíð, svo mikið að Gunnþór telur að það geti jafnvel tekið einhvern tíma að koma því öllu í sölu. Gróflega áætlað telur hann að þessi loðnuvertíð skili 42-45 milljörðum króna í verðmætum.

„Það mun taka einhvern tíma að búa til verðmæti úr öllum þessum hrognum. Líklega verða framleidd um 20 þúsund tonn af hrognum á þessari vertíð og það gæti tekið eitt til tvö ár að selja allt þetta magn. Það stefnir í það að það verði birgðir af hrognum í landinu sem eðli málsins samkvæmt setur pressu á verðið,“ segir Gunnþór.