Ýmsar hækkanir tóku gildi um áramótin til kaupenda og seljenda hjá Reiknistofu fiskmarkaðanna, RSF. Á heimasíðu RSF segir að breytingin á gjaldskránni hafi tekið gildi 1. janúar síðastliðinn og komi hún til vegna hækkunar á helstu kostnaðarliðum félagsins.
Undir gjaldskrá RSF fellur þjónustugjald fyrir kaupendur sem verður 4.900 kr. á viku og 500 kr. á viku fyrir seljendur. Hvað markaðina sjálfa varðar hækkar gjald markaða fyrir sölu og uppgjöri hjá RSF og verður 1,50 kr. fyrir hvert kg og gjald fyrir sölu fer í 1,28 kr. hvert kg. Tengingarleyfi fyrir nýja lögaðila verður 10.000.000 kr. og gjald fyrir nýja útstöð lögaðila sem er með tengingarleyfi verður 2.000.000 kr. Þá verður almennur aðgangur að vefsíðu rsf.is 7.000 kr. á mánuði og API-gagnaaðgangur mun kosta 9.500 kr. á mánuði.
Jafnframt hafa orðið hækkanir á keraleigu, bæði hjá Umbúðamiðlun og iTUB sem auglýstar eru á heimasíðu Reiknistofu fiskmarkaðanna. Kílógjald á iTUB kerum á fiskmörkuðum hækkar í 2,35 kr./kg. Önnur leigugjöld hækka um 6,8% og ýmis þjónustugjöld innanlands um 5-10%. Gjald fyrir heimfrakt og þvott erlendis helst óbreytt.
Samkvæmt gjaldskrá Umbúðamiðlunar er kílógjald 2,31 kr/kg, dagleiga á 460 l keri 143 kr/stk og mánaðarleiga 3.970 kr/stk. Dagleiga á 660 l keri er 181 kr/stk og mánaðarleiga 4.550 kr/stk. Nánar má kynna sér gjaldskrár iTUB og Umbúðamiðlunar á heimasíðum þeirra.