Loðnuflotinn hefur undanfarið verið vestur af Faxaflóa en stöðug ótíð setur mark sitt á þessa vertíð og þegar færi gefst er veiðin dræm. Ólafur Einarsson, skipstjóri á Heimaey VE, segir marga telja að loðnuveiðin á vertíðinni endurspegli ekki þá ríflegu ráðgjöf sem aflamarkið nú byggist á. Ólafur segir það sorglega nú að lítið hafi ennþá verið framleitt af hrognum. Hann segir loðnuna sums staðar þegar hrygnda og ætla megi að vertíðin sé á lokametrunum.

Stór hluti loðnuflotans var í einum hnapp vestur  af Faxaflóa þegar Fiskifréttir höfðu samband og fór veður versnandi.

„Við erum nú bara að dæla hérna nokkrum tonnum í kolvitlausu veðri eins og er nánast alltaf. Það hefur verið bræla í allan vetur og þegar það fer saman við lítið af loðnu þá verður þetta að mikilli brekku,“ segir Ólafur.

Hann segir að eitthvað af loðnu hafi verið norður af Ísafjarðardjúpi og einhverjir loðnubátar séu ennþá þar að reyna fyrir sér. Loðnan sé þó ekki að gefa mikið færi á sér þar frekar en annars staðar. Hún liggi víðast djúpt og sé dreifð. Í Faxaflóanum séu stöku torfur eins og oft á þessum árstíma en ekki sé hægt að tala um göngu í því sambandi.

„Menn eru bara að pikka upp úr einstaka torfum en það er enginn kraftur í þessu. Svo myndast einhver smá blettur og þá vilja allir vera þar. Það endurspeglar líka það hve lítið er af loðnu. Við erum líklega að dæla einhverjum 200 tonnum úr þessu kasti núna,“ sagði Ólafur.

Ráðgjöfin rífleg?

Þrátt fyrir allt hefur íslenski loðnuflotinn þó veitt nálægt 470 þúsund tonnum á þessari loðnuvertíð eða nálægt 70% af útgefnu aflamarki. Verðmætasti hlutinn er þó eftir sem er loðna hæf í hrognatöku og Ólafi finnst sem yfirbragðið á vertíðinni sé orðið dálítið „lokalegt“, eins og hann orðar það. Úthlutað heildarmagn til Heimaeyjar á vertíðinni var 26.700 tonn og hefur tekist að veiða rétt rúmlega helminginn af því.

„Það var alveg fyrirséð að við myndum aldrei ná þessu öllu. Þetta er bara alltof stór kvóti miðað við hvað er af loðnu í sjónum og það er samdóma álit allra hér. Það eru margir á því að ráðgjöfin hafi einfaldlega verið of rífleg.“

Loðnan sem þó hefur verið að fást er farin að nálgast hrygningu.

„Það voru fréttir af því í gær [mánudag] að í Eyjafjallasjó veiddist hrygnd loðna en þar fékkst óhrygnd loðna daginn áður. Hákon EA fékk svo einhverja loðnu austan við Ingólfshöfða á mánudaginn. En þar er auðvitað vitlaust veður í dag. Það verður bara að segjast að það er mjög lokalegt yfir þessu öllu. Vestanganga er svo óskrifað blað og líklega það eina sem gæti bjargað þessu. En það eru engar vísbendingar um að hún sé að koma. Það er hellingur eftir af kvótanum og sáralítið búið að framleiða af hrognum. Tíðarfarið hefur ekki verið að hjálpa okkur heldur. Það eru endalausar brælur. Það er ávísun á þunglyndi að skoða veðurspár fram í tímann. Menn voru fullir bjartsýni í upphafi loðnuvertíðar en veruleikinn er dálítið annar,“ segir Ólafur.