„Í Langanesbyggð sjáum við fyrir okkur að missa bróðurpartinn af útsvarstekjum okkar verði þetta frumvarp að lögum,“ segir byggðaráð Langanesbyggðar um drög að frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjald.

„Áður en þetta frumvarp var lagt fram hafði ríkisvaldið veitt okkur mjög þung högg í atvinnulífinu. Byggðakvóti Þórshafnar var skertur úr 102 tonnum í 32 sem er brot á reglugerð 818/2024 og engin svör hafa fengist frá ráðuneytinu um ástæður. Ríkið brýtur reglugerðina með einu pennastriki. Sértæki strandveiðikvótinn var skertur um 25 prósent á Bakkafirði í byrjun árs og fór úr 400 tonnum í 300 tonn. Það varð til þess að önnur af tveimur fiskvinnslum lokaði þar sem sá kvóti sem var til úthlutunar nægði ekki báðum fiskvinnslum. Til að bíta höfuðið af skömminni var byggðakvóti Bakkafjarðar skertur um 15 tonn aðeins hálfum mánuði eftir að ríkið sleppti hendinni af aðgerðum sínum á Bakkafirði vegna „Brothættra byggða“,“ segir byggðaráðið.

Köld vatnsgusa framan í íbúa Langanesbyggðar

Þar að auki hafi áður verið ákveðið að setja grásleppu í kvóta sem gangi næst því að rota smábátaútgerð frá Bakkafirði. „Allt þetta var eins og köld vatnsgusa framan í íbúa Langanesbyggðar og atvinnulífið í sveitarfélaginu,“ segir byggðaráðið.

Skorar byggðarráðið á ríkisstjórnina að „hugsa út fyrir höfuðborgarsvæðið“ og gera ítarlega greiningu á áhrifum þessarar breytingar og „færa rök fyrir þeim önnur en þau pólitísku rök að verið sé að færa til fjármagn frá landsbyggðinni þar sem það verður sett í einhverja óskilgreinda hít og innantóm loforð um að það fari í innviðaskuld“.

Einnig segir byggðaráð Langanesbyggðar að því hafi verið haldið fram að breytingarnir hafi sáralítil áhrif á byggðir landsins.

Leggist mjög þungt á margar byggðir utan höfuðborgarsvæðisins

„Það er ekki sá veruleiki sem blasir við íbúum úti á landi. Engar greiningar á áhrifum hækkunar gjaldsins fylgja frumvarpinu og verkur það furðu okkar sem búum utan höfuðborgarsvæðis og verðum fyrir mestum áhrifum af þessari breytingu. Þetta gjald leggst mjög þungt á nær allar byggðir utan höfuðborgarsvæðisins sem byggja á sjávarútvegi af hvaða stærð sem fyrirtækin eru,“ segir byggðaráðið og fullyrðir að ákvörðunin byggi ekki á neinum rökstuðningi eða skynsemi heldur virðist hún tekin á hreinum pólitískum grunni.

„Þeim orðum að tekjuaukningin komi til með að skila sér til landsbyggðarinnar í traustari innviðum, meðal annars í betri vegum, treystum við íbúar úti á landi einfaldlega ekki. Eftir 17 ára vanrækslu á uppbyggingu innviða og þá sérstaklega hvað varðar vegakerfið segja efndir orða allt um staðreyndir málsins,“ segir í bókun byggðaráðs Langanesbyggðar.