„Það er erfitt að sjá fyrir sér að það verði hægt að hreinsa upp hnúðlaxinn,“ segir Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri á lax- og silungsveiðisviði Fiskistofu.
Eins og kom fram í Fiskifréttum í síðustu viku var lögum breytt svo að Fiskistofa gæti heimilað veiðifélögum ádráttarveiði í laxveiðiám til að ná hnúðlöxum úr ánum. Reglugerð þar að lútandi tók gildi 26. júní og segir Guðni nokkrar umsóknir þegar hafa borist.
Búist er við talsverðum göngum hnúðlaxa hérlendis í sumar í kjölfar þess að Kyrrahafsfiskurinn óvelkomni virðist vera farinn að hrygna í nokkrum mæli í íslenskum ám.
Áhyggjur af þróuninni
„Menn hafa áhyggjur af þessari þróun,“ segir Guðni um stöðuna. Jákvæðu fréttirnar í slæmri stöðu séu þær að hnúðlaxaseiðin gangi til sjávar mjög fljótlega eftir að þau klekist út á vorin. Þannig séu þau ekki í mikill samkeppni um fæðu við laxaseiði, sem gangi ekki til sjávar fyrr en þriggja til sex ára gömul og reiði sig því á fæðuframboð í ánum. „En það er mögulega samkeppni um hrygningarstaði og mögulega er truflun af hnúðlaxinum á hrygningartíma laxins,“ segir Guðni.
Að sögn Guðna veiddist fyrir tveimur árum, sumarið 2021, umtalsvert af hnúðlaxi og veiðifélögin vildu geta gripið til ráðstafa.
„Lagaumhverfið tók alls ekki mið af þessari stöðu. Við veittum engar heimildir en gerðum ekki athugasemdir þótt menn notuðu ádráttarnet árið 2021,“ segir Guðni og lýsir þannig hvernig Fiskistofa tók mið af aðstæðum þar sem hnúðlaxar voru í áberandi miklu magni.
Þannig var lögunum sem gera nú veiðifélögum kleift að draga fyrir hnúðlax meðal annars breytt vegna óska veiðifélaganna sjálfra. Um er að ræða bráðabirgðaákvæði til þriggja ára. Reglugerð um veiðarnar tók gildi 26. júní síðastliðinn. Nokkrar umsóknir um slíka ádráttarveiði hafa síðan borist og verið samþykktar af Fiskistofu.
Leitist við að hlífa laxinum
„Veiðifélögunum ber að skrá aflann líkt og gildir um aðrar veiðar. Svo óskum við eftir því að fá stutta lýsingu eftir veiðitímabilið um það hversu oft hafi verið dregið á og á þeim aðgerðum sem gripið er til,“ segir Guðni. „Það er hugsað til þess að við fáum einhverja mynd af því hversu umfangsmikið þetta er.“
Aðspurður segir Guðni von á því að hnúðlaxar gangi í árnar upp úr miðjum júlí. Mikilvægt sé að ádráttarveiðar fari rétt fram. „Við erum að hvetja til þess að það séu notuð ádráttarnet sem eru ólíkleg til að ánetja fiskinn þannig að það sé hægt að sleppa laxi og öðrum tegundum,“ segir hann og bendir á að veiðifélögunum sé vitanlega mjög umhugað um það að hlífa laxi og silungi sem tilheyri vatnasvæði þeirra.
Lífsferill hnúðlaxa einkennist af tveggja ára sveiflu þannig að eitt árið gengur hann í árnar og næsta ár ganga seiðin til sjávar og koma síðan til baka árið eftir. Göngurnar í árnar eru á oddatöluárum.
Býst við aukinni hnúðlaxaveiði
„Við vorum í samskiptum við Landssamband veiðifélaga og niðurstaðan var sú að við myndum ekki gera athugasemdir eða hafa afskipti af þessu,“ segir Guðni. Eins og fyrr segir er reiknað með að hnúðlaxar gangi í íslenskar ár í sumar sem aldrei fyrr. Sumarið 2021 veiddust á fjórða hundrað hnúðlaxar hér. „Það kæmi ekkert á óvart að það myndu veiðast yfir þúsund fiskar núna,“ segir Guðni á Fiskistofu.