Björgunarbátar úr Hafnarfirði Kópavogi aðstoðu í gærkvöldi skipverja smábáts undan Álftanesi. þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnfélaginu Landsbjörgu:

„Rétt fyrir 11 í gærkvöldi, sunnudagskvöld, barst hjálparbeiðni frá skipverja smábáts sem þá var staddur skammt undan Álftanesi og var í vélarvandræðum. Vél bátsins ofhitnaði við áreynslu, og taldi skipverji ekki óhætt að halda áfram fyrir eigin vélarafli.

Björgunarbátarnir Fiskaklettur úr Hafnarfirði og Sædís frá Kópavogi voru boðaðir út og héldu til aðstoðar. Sjólag var ágætt, en gekk á með éljum.

Um fimmtán mínútur fyrir miðnætti voru þau komin að smábátnum og hann var í kjölfarið tekinn í tog af Sædísi.

Stefnan var sett á Hafnarfjarðarhöfn, þangað sem smábáturinn ætlaði að fara. Ferðin gekk vel með bátinn í togi og voru þeir komnir í höfn í Hafnarfirði um klukkustund síðar.

Vel gekk að koma bilaða bátnum að bryggju. Aðgerðum lauk rétt rúmlega eitt í nótt, þegar Sædís var kominn til síns heima.“