Hafrannsóknastofnun kynnti úttekt sína á ástandi nytjastofna og ráðgjöf fyrir komandi fiskveiðiár í gær. Enn er mælt með að dregið verði úr þorskveiði á Íslandsmiðum, eins og flestir gerðu ráð fyrir. Góðu fréttirnar er ráðgjöf í ýsu þar sem mælt er með umtalsverðri aukningu í veiði og að 2019 árgangur þorsks er metinn stór.

Stærsta frétt dagsins var eins og alltaf veiðiráðgjöf í þorski, enda efnahagslegt mikilvægi stofnsins mikið. Ráðgjöfin fyrir næsta fiskveiðiár lækkar frá fyrra fiskveiðiári sem kemur til vegna lækkunar á mati á viðmiðunarstofni síðustu ár, og nálgast ráðgjöfin hratt 200.000 tonnin. Kom fram að viðmiðunarstofninn er metinn um 20% minni síðustu þrjú ár samanborið við árin þar á undan. Er hann metinn 976.000 tonn en var metinn 941.000 tonn í fyrra.

Fari hægt vaxandi

Bjarki Þór Elvarsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, kynnti ráðgjöfina. Hann vék fyrst að þorskinum og útskýrði að án sveiflujöfnunnar aflareglu hefði ráðgjöfin í ár verið töluvert sunnan við 200.000 tonnin, eða rúm 195.000 tonn. Ráðlagt aflamark samkvæmt aflareglu er hins vegar gefið 208.846 tonn.

Bjarki fjallaði um horfurnar. Árgangarnir frá 2013 og 2016 eru metnir slakir. Þeir eru nú 9 og 6 ára og ættu að vega mikið í viðmiðunarstofni. Hins vegar eru 2019 og 2020 árgangarnir metnir yfir meðaltali en fyrstu vísbendingar gefa til kynna að árgangurinn frá 2021 sé hins vegar nokkuð undir meðaltali. Spár gera því ráð fyrir að stofninn fari hægt vaxandi á næstu tveimur árum.

„Góðu fréttirnar eru þó þær að við höldum að 2019 árgangurinn sé nú með því stærsta sem við höfum séð í næstum 30 ár en þó er hann langt frá því sem við sáum fyrir 1980,“ sagði Bjarki og bætti við að til að aflamark aukist verulega í þorski vanti stóra árganga inn í stofninn.

Stórir ýsuárgangar

En það eru góðar fréttir af ráðgjöf í ýsunni. Bjarki sagði að stórir árgangar, eða frá 2019 og 2020, séu nú á leið inn í viðmiðunarstofninn. Jafnframt er fyrsta mat á 2021 árgangi í ýsu yfir meðallagi.

Í ufsa dregst ráðlagt aflamark saman en viðmiðunarstofninn er nú metinn 17% minni en mat síðasta árs hljóðaði upp á.

„Vísbendingar eru um að stofninn hafi verið ofmetinn síðan 2018,“ sagði Bjarki og því fyrirséð að aflamark haldi áfram að dragast saman á næstu árum vegna sveiflujöfnunar í aflareglu tegundarinnar.

Í gullkarfa kom fram að hrygningarstofn „mælist nú við aðgerðamörk og útlit fyrir að draga þurfi verulega úr veiðum á komandi árum.“ Árgangar 2000-2005 er uppistaða afla árið 2021 og árgangar frá 2009 eru slakir, sagði Bjarki.

Hvað varðar íslensku sumargotssíldina sagði Bjarki að stofninn hafi minnkað ört vegna sýkingar og minni nýliðunar. Viðmiðunarstofn stækkar hins vegar vegna góðrar nýliðunar árin 2017 og 2018.

Lítil nýsmit greinast nú í yngri árgöngum í stofninum en þó er áfram óvissa vegna áhrifa sýkingarinnar, sagði Bjarki.

Léleg nýliðun

Þorsteinn Sig­urðsson­, for­stjóri Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, hóf kynningarfundinn. Ítrekaði hann að nýliðun margra fiskistofna hefur verið afar slök undanfarin ár. Nefndi hann í því sambandi keilu, löngu, blálöngu, djúpkarfa, skötusel, langlúru, stórkjöftu og humar sem er þó ekki tæmandi listi. Þetta eru tegundir sem að mestu halda sig í hlýjum sjó við suður- og vesturströnd Íslands.

„Því miður virðist lítil breyting vera á þessu. Ástæður þessarar neikvæðu þróunar eru ekki þekktar en nærtækasta skýringin eru breytingar í umhverfisskilyrðum í hafinu við Ísland, en orsakasamhengið er því miður að öðru leyti óþekkt,“ sagði Þorsteinn.

Kom fram í niðurstöðum kynningarinnar að áhrifa lélegrar nýliðunar sé farið að gæta mjög í ráðgjöf stofnunarinnar, þar sem sérstaklega voru nefndir stofnar gullkarfa, djúpkarfa, blálöngu, skötusels og hlýra.