Ísfisktogarinn Gullver NS landaði 106 tonnum í heimahöfn á Seyðisfirði í gær. Áhöfnin varð vör við loðnu í túrnum.

„Túrinn var frekar langur, eða sex dagar. Það var frekar tregt víða þar sem við reyndum. Aflinn var mest þorskur og ýsa og dálítið af karfa og ufsa með. Við byrjuðum á að fara vestur á Stokksnesgrunn og enduðum á Glettingi og það var víða þreifað þar á milli. Veður var upp og ofan. Það hafa einungis verið tvö eða þrjú skip fyrir austan land að undanförnu og þau hafa ekki hitt á mikinn fisk. Við urðum örlítið varir við loðnu í túrnum. Við sáum engar torfur en það ánetjaðist ein og ein loðna hjá okkur og svo sáum við eina og eina í fiskinum,” sagði Þórhallur Jónsson skipstjóri.

Gullver mun halda til veiða á ný á morgun.