Þór lýsir því svo að margt hafi verið einstaklega aftarlega á merinni í Chacabuco þegar hann kom þangað í fyrsta sinn 1993. Það var verið að reyna að byggja upp Friosur og að nútímavæða flotann og veiðiaðferðirnar. Þannig kom líka til samstarfið við Granda á sínum tíma. Fyrirtækið hafði fengið Karlsefni RE og seinna Elínu Þorbjarnardóttur ÍS þar sem Þór átti upphaflega að vera skipstjóri. Ávallt endaði það þó með því að hann var settur á önnur og enn lakari skip. „Þeir settu mig á skip sem ekkert hafði fiskast á. Skipið var systurskip Akureyrinnar EA og í raun sennilega eitt af lélegri skipum útgerðarinnar. Stjórnendur Friosur spurðu mig hvers vegna ekkert fiskaðist á þetta skip. Ég sagði þeim að ég gæti alveg farið á það enda vissi ég að þótt það væri ekki besta skipið þeirra var það þó skárra en Elín Þorbjarnardóttir. Ég vissi auðvitað líka að alltaf hafði fiskast vel á Akureyrina. Til að gera langa sögu stutta vorum við fljótir að koma skipinu í efsta sæti á lista yfir aflahæstu skip útgerðarinnar.“
Merluza og merluza
Verðmætasti fiskurinn á þess um slóðum er lýsingur, nánar tiltekið merluza austral og merluza cola. Þetta eru þær tegundir sem Þór hefur aðallega verið á höttunum eftir þegar hann er í brúnni. Merluza austral er seldur heill eða hausaður til Spánar, ferskur eða frystur. Merluza cola er unninn í flök. Þetta eru skyldar tegundir en Þór segir þær mjög innbyrðis ólíkar. Merluza austral er stór fiskur, 3-6 kg að jafnaði, en merluza cola er frá 300 grömmum og upp í tvö kg og er meira veidd í flottroll. Merluza austral er líka veidd í flottroll en það er þá dregið eftir botninum þar sem það er gerlegt.
70 manns um borð
„Hérna þurfum við að þekkja botninn og þegar ég kom hingað fyrst kunni ég ekkert á hann. Hérna er mikið um kanta og fjöll og við vorum gjarnan að demba flottrollinu niður fjöllin eða draga upp fjöllin. Þetta voru dálitlar æfingar. Ég lenti líka í því að rífa veiðarfæri en í dag gerist það nánast aldrei. Stundum slítum við einhverja möskva en þá er bara gert við það um borð.“
Dæmigerð veiðiferð stendur yfir í 30-40 daga á Cabo de Hornos og er miðað við að skipið komi með 500 tonn af afurðum til útflutnings. Allar afurðirnar eru seldar úr landi. Um borð er fryst og flakað, hausað og heilfryst og við þetta starfa 70 manns. Ekki eru þó allir við vinnsluna – tíu manns eru í vél, fimm í eldhúsi og fimm í brúnni. Átta tíma vaktir eru í vinnslunni og átta tíma frítími í 30 til 40 daga. Þór segir að menn beri sæmilega úr býtum, eða nálægt 1,5 milljón chileskra pesóa, sem er um 210.000 umreiknað í íslenskar krónur, sem þykja ágæt laun þar í landi.