Skinney-Þinganes gerir út uppsjávarskipin Ásgrím Halldórsson SF og Jónu Eðvalds SF, fjögur bolfiskskip, þar af tvö, Steinunni og Þinganes, sem smíðuð voru hjá Vard í Noregi og komu til landsins síðla árs 2019. Þau voru hluti af sjö skipa raðsmíðaverkefni fyrir Skinney-Þinganes, Gjögur, Berg-Huginn og Útgerðarfélag Akureyringa. Skinney SF og Þórir SF voru smíðaðir í Tævan 2008. Þau skip voru lengd um 10 metra í Póllandi 2019 og eru rúmra 40 metra langir ferskfisktogarar. Minni bátarnir mega veiða innan þriggja mílna landhelginnar á vetrarvertíðinni en þeir stærri ekki.

„Við létum lengja Skinney og Þóri og breyta ekki síst til þess að nýta þá betur á humarveiðum. Við breyttum dekkjunum og náðum miklum árangri í því að ná humrinum heilum á land. En samhliða því fór humarstofninn að láta verulega á sjá,“ segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða- og vinnslu hjá Skinney-Þinganes.

Humarinn út

Vandinn með humarstofninn snýr að nýliðun hann. Talsvert er af stórum humar en bera fór á lítilli nýliðun strax árið 2010. Línan hefur síðan legið beint niður. Þó var það í raun ekki fyrr en upp úr 2016 að menn fóru að átta sig á því að það stefndi í óefni. Á þessu ári og því næsta eru humarveiðar bannaðar með öllu við Ísland. Humarveiðar og -vinnsla hafa síðustu ár verið 10-15% af heildartekjum Skinneyjar-Þinganess.

Ásgeir segir að litlum krafti hafi verið varið í rannsóknir á humarstofninum og á þessu ári fari engar rannsóknir fram á vegum Hafrannsóknastofnunar. Honum finnst skjóta skökku við að ekki sé reynt að fylgjast með þróun stofnsins sem er mjög mikilvægur fyrir sjávarbyggðir á Suðurlandi.

„Í ár verða engar humarrannsóknir á vegum Hafró vegna niðurskurðar. Það er í fyrsta sinn sem þær leggjast algjörlega af á seinni árum. Holutalningar hófust á vegum Hafró 2017 og stofnunin var farin að meta humarstofninn eingöngu út frá þeim talningum eins og flestar þjóðir sem veiða humar gera.“

  • Djúprista nýja uppsjávarskipsins tekur tillit til aðstæðna í innsiglingunni til hafnar. Mynd/Skinney-Þinganes

Hafrannsóknastofnun stefnir nú að því að holutalning fari fram annað hvert ár og verður næsta talning því sumarið 2023. Ásgeir segir Hafró bera fyrir sig fjárskorti en kostnaður við holutalninguna hlaupi þó ekki á stórum upphæðum.

„Humarstofninn hefur fylgt okkur frá lengi og slæmt til þess að hugsa að ekki sé meiri áhugi hjá stjórnvöldum að fylgjast með þróun stofnsins en þetta,“ segir Ásgeir.

Þær breytingar urðu á humarveiðum frá Höfn síðustu árin að skipum fækkaði og þau urðu öflugri og drógu flest tvö troll. Veiðitíminn lengdist og var farinn að hefjast í mars og standa alveg fram í október. Veiðitíminn var því fast að níu mánuðir og fjögur skip á þessum veiðum hjá Skinney-Þinganesi. Undanfarin ár hefur humarveiðin verið verkefni fyrir tvö skip í 7-8 mánuði.  Ásgeir segir að ástand humarstofnsins virðist lítið hafa með sóknina að gera.

„Það blasir við því talsvert er af stórum humri en nýliðunina vantar. Ýmsar getgátur hafa verið settar fram sem skýring á þessu eins og breyttir hafstraumar. Það eru fleiri tegundir sem hrygna við Suðurströndina sem glíma við nýliðunarbrest á sama tíma og humarinn, eins og sandsíli, flatfiskar, keila og blálanga.“

Eftirlitsveiðar á humarmiðum

Annað sem rennir stoðum undir að ekki sé sóknarþunga að kenna er sú staðreynd að skip Skinneyjar-Þinganess hafa fundið ný humarmið á ósnertum dýpum þar sem aldrei hefur verið togað áður. Þar er alveg sama staða – þar fæst stór humar en nýliðun er lítil sem engin. Þetta bendi til þess að veiðarfærin séu ekki valdur að þessari þróun.

Þegar ákvörðun Hafró lá fyrir um fara ekki í rannsóknir á þessu ári bauðst Skinney-Þinganes til þess að leggja til skip og mannskap, fara inn á öll dýpin og taka nokkur tog. Hugsanlega mætti lesa út úr því hvernig staðan væri á humarstofninum. Stofnunin samþykkti þetta og fer skip Skinneyjar-Þinganess á austurmiðin núna 22. apríl og togar í Lónsdýpi, Hornafjarðardýpi, Breiðamerkurdýpi og Skeiðarárdýpi. Þetta verður þriggja daga leiðangur og í framhaldinu togar skip frá Vinnslustöðinni á miðsvæðinu, þ.e. Háfadýpi og í kringum Eyjar, og skip frá Rammanum vestursvæðið, þ.e. Jökuldýpið og Eldey. Þessi fyrirtæki hafa haldið á um 80% af humarkvótanum.

Það hefur hjálpað Skinney-Þinganesi eins og fleirum að sinna veiðum á mörgum tegundum. Nýafstaðin loðnuvertíð var sú gjöfulasta í rúman áratug eftir mörg rýr ár. Ásgeir bendir á að samt hafi ekki náðst að veiða allan útgefinn kvóta. Það þýði ekki að ráðgjöfin hafi ekki endurspeglað veiðarnar heldur hafi veturinn verið einn sá versti í manna minnum í veðurfarslegu tilliti. Loðnan hafi komið mjög dreifð inn á miðin og ótíðin hafi takmarkað mjög sóknina.

„Á móti kemur að verð á loðnuafurðum er í sögulegu hámarki, einkum á hrognum og frystri hrygnu. Þau hefðu kannski ekki orðið svo há hefði allur kvótinn náðst. Á móti kemur líka að markaður fyrir hænginn hrundi í Austur-Evrópu. Við ætluðum að frysta um 5.000 tonn af hæng inn á Austur-Evrópu og höfðum þegar fryst um 2.000 tonn þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst. Við hættum strax frystingu og fórum meira út í mjölframleiðslu. Mjölverð er mjög hátt í dag og þetta kom því síður að sök,“ segir Ásgeir.

Skinney-Þinganes er ekki í aðstöðu til vinna hrogn og fór meirihluti hrognafullrar loðnu til vinnslu í Vestmannaeyjum.

Grunnrist uppsjávarskip

Nú er að hefjast smíði á nýju uppsjávarskipi fyrirtækisins í Skagen í Danmörku. Það sem gerði útslagið um ákvörðunina var vilyrði stjórnvalda um að dýpka innsiglinguna um Hornafjarðarós. Þar stendur til í sumar að fjarlægja 300.000 rúmmetra.

„Við hefðum aldrei farið út í nýsmíði hefði þetta ekki legið fyrir. Við teljum að það sé komið að okkur því við höfum þurft að kljást við erfiðar hafnaraðstæður áratugum saman. Skip okkar hafa ekki þróast í takt við tímann vegna þessa. Þau eru með minna lestarrými, aflminni og með lakari aðstöðu að öllu leyti. Við erum með elsta nótaskip flotans, Jónu Eðvalds, sem var smíðað 1974. Það er enn þá í okkar þjónustu eingöngu vegna þess að skipið er það grunnristasta í íslenska flotanum. Sama má segja um Ásgrím Halldórsson SF,“ segir Ásgeir.

© Þorgeir Baldursson (.)

  • Steinunn SF og Þinganes SF, voru hjá Vard í Noregi og komu til landsins síðla árs 2019. Mynd/Þorgeir Baldursson

Skipið sem nú er í smíðum er grunnristara en bæði núverandi uppsjávarskip fyrirtækisins og það þótt 2.400 tonn komist í lest samanborið við 1.500 rúmmetra í eldri skipunum. Skipið er sérstaklega hannað með tilliti til aðstæðna á Höfn í Hornafirði. Það er breiðara en sambærileg, ný uppsjávarskip, grunnristara og skrúfan minni. Ekki hefur verið ákveðið hvað nýja skipið mun heita. Ekki er heldur ljóst hvort það verður Jóna Eðvalds eða Ásgrímur Halldórsson sem víkja en Skinney-Þinganes ætlar að halda áfram að gera út tvö uppsjávarskip. Kjölur verður lagður að nýsmíðinni í skipasmíðastöð Karstensens í Póllandi í ágúst og skipið klárað í Skagen. Afhending er áætluð í apríl 2024, eftir tvær loðnuvertíðir.

Ásgeir er bjartsýnn á góðan gang á næstu loðnuvertíð. Allar mælingar sýni að vertíðin geti orðið góð. Þó búi menn sig undir að sveiflur geti orðið eins og menn þekkja. Næst á dagskránni hjá uppsjávarskipunum er makrílveiðar um miðjan júní. Ásgeir er efins um að makríll gangi inn á Íslandsmið í sumar. Svo virðist sem hann hörfi út úr lögsögunni. Vertíðin fari því líklega mest fram í Smugunni langt norður í höfum. Ókosturinn við það er langar siglingar og lakara og verðminna hráefni. Í beinu framhaldi verður veidd norsk-íslensk síld og svo íslensk síld. Uppsjávarvertíðin hjá Skinney-Þinganesi nær því frá 15. júní til 1. apríl ár hvert, eða tæpa tíu mánuði. Árinu yrði lokað væru skipin líka á kolmunnaveiðum.

„Þegar við hófum uppsjávarveiðar fyrir alvöru áttum við helming í Ásgrími Halldórssyni á móti Síldarvinnslunni. Við gerðum hann út hálft ár og Síldarvinnslan hálft ár á kolmunna. Við snertum því sjálfir aldrei á kolmunna og veiðireynslan féll í hlut Síldarvinnslunnar.“

Bolfiskheimildir Skinneyjar-Þinganess eru rúm 17.000 tonn, þar af um 10.000 tonn í þorski. Þær skertust í fyrra eins og annarra. Samdrátturinn var um 1.200 tonn sem dreifist niður á bolfiskskipin fjögur sem höfðu líka orðið fyrir því að missa allan humarkvótann í sumar og á næsta ári, að minnsta kosti. Auk þess gerir Skinney-Þinganes út línubátinn Vigur SF. Eins og margir aðrir talar Ásgeir um mikla þorskgegnd nánast alls staðar í kringum landið. En það geti orðið sveiflur upp og sveiflur niður og íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið er það kerfi sem þeir vilji vinna eftir.

Fiskvinnslan

Skinney-Þinganes rekur hátæknivædda bolfiskvinnslu í Krossey á Höfn og Þorlákshöfn þar sem um 90 manns starfa og 35-40 manns í Þorlákshöfn. Í heildina eru stöðugildi hjá fyrirtækinu um 320. Skinney-Þinganes var lengi rótgróinn saltfiskframleiðandi en áherslurnar hafa færst yfir í ferskan fisk og frystan á síðustu árum. Vatnskurðarvél er í vinnslunni í Krossey og þjarkavæddur flokkari, allt frá Marel. En vatnskurðarvél og pökkunarvél frá Völku  er í Þorlákshöfn og þær eru keyrðar fimm daga vikunnar. Mjög lítið af afurðunum fara nú orðið í salt og megnið í ferskan fisk. Þessi umbreyting varð í ljósi markaðsbreytinga og samhliða því var skipaflotanum breytt. Áður voru þrír bátar á netum og tekin um 4 þúsund tonn á þá yfir vetrarvertíðina. Nú eru eingöngu togskip að veiðum og þeim er jafnað út árið.

„Fiskverð hefur hækkað og á eftir að verða gott. Þegar fram í sækir má búast við verðhækkunum nú þegar lokað hefur verið á fiskinnflutning til Evrópu frá Rússlandi.“

Langstærsti markaður Skinneyjar-Þinganess fyrir ferskan fisk er Frakkland. Þangað fer 80-90% af afurðunum. Varan fer inn á verslanakeðjur og veitingahús sem er blandaður markaður sem kom sér vel þegar heimsfaraldurinn skall á með tilheyrandi lokunum á veitingastöðum og hótelum.

Um sölumálin sér fyrirtækið Stormar sem er í jafnri eigu Skinneyjar-Þinganess, Gjögurs, Ísfélagsins og Brims. Framkvæmdastjóri er Hjalti Vignisson og á skrifstofunni í Frakklandi eru starfandi fjórir Frakkar. Ásgeir segir það grunninn að góðum árangri í Frakklandi að vera með heimamenn sem þekkja markaðinn. Nú er öll veiðin skipulögð út frá sölunni. Afurðirnar eru komnar á markað í Evrópu tveimur dögum eftir að bátarnir landa. Samtalið milli skipa, vinnslu og söluskrifstofu stendur yfir allan daginn.