Vélfag ehf. á Akureyri hefur selt sína fyrstu UNO fiskvinnsluvél til fiskeldisfyrirtækis í Noregi sem sérhæfir sig í eldi á þorski. Þessi byltingarkennda fiskvinnsluvél, sem flakar, beinhreinsar og roðdregur fisk, hefur þegar vakið athygli á alþjóðavettvangi. Vélin er nú í notkun hjá þremur aðilum: Kambur í Hafnarfirði hefur unnið með hana undanfarið ár með góðum árangri, og tvær slíkar vélar hafa einnig verið seldar til nýsköpunartogarans Ecofive, sem norska útgerðin Bluewild gerir út.
UNO vélin er í stöðugri þróun, með möguleikanum á að bæta við fjórða vinnslufasanum, hausun. Að auki hefur vélin verið uppfærð með hurðum úr ryðfríu stáli og gluggum á húsi hennar, sem eykur aðgengi og auðveldar eftirlit.
Vélin, sem fer til norska þorskeldisfyrirtækisins, var send í gáma um helgina og er nú á leið sjóleiðina til Noregs.
„Þessi sala undirstrikar ekki aðeins traust viðskiptavina á tækni Vélfags heldur einnig ört vaxandi möguleika í vinnslu eldisfisks. Með nýsköpun og sérsniðnum lausnum leiðir Vélfag þróun tækninnar sem styður við sjálfbæra, hagkvæma og háþróaða vinnslu sjávarafurða,“ segir Silfá Huld Bjarmadóttir, markaðsstjóri Vélfags ehf.
