Jakob Björnsson vélstjóri í fiskvinnsluhúsi Útgerðarfélags Akureyringa á Akureyri hefur svo að segja alla tíð starfað við frysti- og kælikerfi í sjávarútvegi, bæði til sjós og lands. Vinnsluhús ÚA er afkastamikið og vel útbúið tæknilega fullkomnum búnaði, sem er nokkuð flókinn, þar sem mörg kerfi þurfa að virka saman eins og til er ætlast.
Mismunandi kæli- og frystikerfi
„Starfið er ansi fjölbreytt en í grunninn má segja að ég beri víðtæka og fjölþætta ábyrgð á frysti- sjó,- og loftkerfum, sem eru starfrækt í öllum deildum vinnsluhússins. Þá falla til alls konar önnur verkefni, jafnvel stíflaður vaskur í eldhúsinu og þá erum við kölluð á vettvang. Hérna eru unnar fjölbreyttar afurðir sem fara frá okkur annað hvort frosnar eða kældar og framleiðslan kallar á mismunandi kæli- og frystikerfi. Allur búnaðurinn þarf auðvitað að virka eins og lagt er upp með, annars er hætta á að vinnslan stöðvist og í þannig stöðu viljum við auðvitað ekki lenda,“ segir Jakob þegar hann er spurður um dagleg verkefni vélstjórans.
Nýju kerfin umhverfisvænni
„Jú jú, það má alveg segja að kæli- og frystikerfi séu almennt séð nokkuð flókin. Búnaðurinn hérna hefur verið uppfærður eða endurnýjaður að stórum hluta á undanförnum árum. Sjálfvirkni hefur aukist og þar með rekstraröryggi, auk þess sem nýju kerfin eru mun umhverfisvænni en þau gömlu. Viðhald á eldri búnaði var mjög gott en engu að síður var kominn tími á endurnýjun og uppfærslu. Við tökum þetta allt saman í skrefum en ég get hiklaust sagt að fiskvinnsluhús Samherja standa mjög framarlega á sviði kæli- og frystibúnaðar.“
Getur fylgst með búnaðinum úr fjarlægð
Jakob segir að talsverður tími fari í reglulegt eftirlit og fyrirbyggjandi viðhald.
„Okkar hlutverk er að koma í veg fyrir vinnslustopp, grípa til aðgerða áður en búnaðurinn stoppar einhverra hluta vegna. Við mætum venjulega tveimur tímum áður en vinnsla hefst í húsinu til þess að ganga úr skugga um að allir hlutir virki sem skyldi. Svo er maður í raun alltaf á bakvakt, þannig lagað. Með aukinni tækni getur maður þó fylgst með kerfunum í gegnum símann hvar sem er, sem er mikill munur frá fyrri tíð.“
Í daglegum samskiptum við marga
„Þetta er um margt spennandi og skemmtilegt starf. Ég er í samskiptum við flesta starfsmenn og fer daglega um allt húsið. Skrefin hjá mér eru því nokkuð mörg á hverjum degi. Faglega séð hefur það skipt mig miklu máli að taka þátt í endurnýjun búnaðar frá svo að segja upphafi til enda. Tækniframfarir eru nokkuð örar í faginu, engu að síður eru grunngildin alltaf þau sömu, kæla eða frysta,“ segir Jakob Björnsson vélstjóri í vinnsluhúsi Útgerðarfélags Akureyringa.
Bylting í meðferð hráefnis
Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja segir að meðferð hráefnis hafi tekið miklum breytingum á undanförnu árum, sem líkja megi við byltingu.
„ Við höfum gjörbylt aðstöðunni um borð í skipunum og þau skila nú hráefni í land sem er undir núll gráðum, þó ekki þannig að fiskurinn sé farinn að frjósa. Síðan höfum við stórbætt alla ferla í vinnslunni þannig að hitastiginu er haldið nálægt núlli alla tímann. Þetta gerir það að verkum að í dag erum við að framleiða álíka mikið af ferskum og frosnum afurðum á hverjum degi. Fersku afurðirnar fara til viðskiptavina í Evrópu með flugi eða skipi og eru oft komnar í hillur stórmarkaða einum til tveimur sólarhringum eftir af fiskinum var landað hérna á Íslandi,“ segir Gestur Geirsson.