Svanur Guðmundsson sjávarútvegsfræðingur hefur undanfarið ár unnið að því að þróa háþróaða gervigreindarvél sem nýtir söguleg veiðigögn frá fiskiskipum til að spá fyrir um hvar og hvenær skal helst veiða helstu botnfisktegundir. Módelið byggir á veiðigögnum frá ákveðnum skipum sem hafa safnað upplýsingum um afla, hitastig og vindhraða á mismunandi svæðum. Með þessum gögnum getur vélin spáð nákvæmlega fyrir um bestu staðsetningu og tíma til að hámarka veiði. Þetta segir Svanur að komi til með að bæta afrakstur og skilvirkni veiða umtalsvert.
Svanur er nú í fyrsta sinn að kynna niðurstöður sinna prófana. Þær sýna að með gervigreind er hægt að umbylta veiðispám til hins betra og margfalda afkomuna í fiskveiðum.
„Módelið er sveigjanlegt og hægt er að bæta við fleiri gögnum til að auka nákvæmni enn frekar. Til viðbótar við veiðigögn, er hægt að bæta inn upplýsingum um veðurfar, sjávarstrauma og gögn um stærð fiska á hverju veiðisvæði. Þetta gefur skipstjórum og veiðistjórum betri yfirsýn yfir bestu skilyrði fyrir veiði á hverjum tíma,“ segir Svanur í viðtali í Tímariti Fiskifrétta sem áskrifendur geta nálgast hér.