Veiðum íslenskra uppsjávarveiðiskipa á kolmunna er lokið þetta vorið við Færeyjar en menn vonast til að geta klárað óvenjustóran kvótann á þessu almanaksári næsta haust og þá verði kolmunninn jafnvel veiðanlegur innan íslenskrar lögsögu. Útgefinn kvóti var rúmlega 270 þúsund tonn, sem var um 70% aukning frá fyrra ári, og í byrjun síðustu viku höfðu íslensku skipin veitt um 220 þúsund tonn.

Einungis tvö skip íslensk voru við veiðar í byrjun síðustu viku. Víkingur AK var reyndar á heimleið með um 2.500 tonn og landaði á Vopnafirði. Hoffell var þá enn að veiðum sunnan Færeyja sem og Polar Amaroq en nú hafa öll skipin lokið veiðum.

Róbert Hafliðason, skipstjóri Víkings AK, sagði verulega hafa dregið úr veiðinni síðustu daga og kolmunninn sem fékkst undir það síðast ekki af bestu gæðum. Þá hafði skipið verið við kolmunnaveiðar á þessu svæði í um átta daga.

„Við byrjuðum í Ræsinu og þar hafði verið mjög góð veiði í tvo daga áður við komum þangað en svo datt veiðin niður. Þá fórum við austur fyrir Færeyjar og vorum suð austarlega í lögsögunni og færðum okkur svo norður eftir. Það var ágætis kropp um síðustu helgi en að öðru leyti var þetta frekar dapurt,“ segir Róbert.

Allir að hætta

Hann segir að það verði sennilega áfram eitthvert kropp en þeim fækki dögunum sem einhver kraftur verði í veiðunum. Skipin séu núna að taka í kringum 400 tonn á um 20 klukkustundum enda sé komið langt fram í maí.

Róbert Hafliðasona skipstjóri.
Róbert Hafliðasona skipstjóri.

Róbert segir að kolmunninn sem hafi fengist undir það síðasta sé erfiður í vinnslu. Talsverð áta er í honum og hann verður að fara beint í bræðslu.

Svanur RE var nýkominn inn til löndunar á Vopnafirði með um 1.650 tonn af kolmunna og ljóst að einhver bið yrði eftir því að landað yrði úr Víkingi.

„Það eru allir að hætta þarna en þó veit ég ekki hvort Hoffellið nái að fara aftur. Menn vilja líka eiga eitthvað eftir af kvóta í haust. Við erum að gæla við það að kolmunninn gangi inn í íslenska lögsögu. Hann gekk að talsverðu leyti hérna vestan við Færeyjar sem hefur ekki gerst lengi þannig að hugsanlega verður kolmunnaveiði í Rósagarðinum í haust.“

Róbert segir að af aflokinni löndun verði kolmunnatrollum skipt út fyrir makríltroll. Svo verði bara beðið átekta. Til standi að allt verði klárt fyrir makríl um miðjan júní. Á síðasta ári var farið af stað í makríl 20. júní. Líklega muni Eyjamenn fylgjast með svæðinu sunnan við Vestmannaeyjar strax eftir sjómannadag. Það sé þó meira upp á von en óvon.