Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er rætt um mótun auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og réttlát auðlindagjöld. Nefnd hefur verið til sögunnar hækkun veiðigjalda í sjávarútvegi en hugmyndir í þá veru eru enn óútfærðar. Uggur er í tæknifyrirtækjum sem hafa þjónustað sjávarútveginn sem telja að boðuð hækkun veiðigjalda muni draga enn frekar úr fjárfestingarvilja sjávarútvegsfyrirtækja sem hefur verið lítill fyrir vegna viðvarandi hárra vaxta og verðbólgu.
Ekki rætt um þrepaskiptingu
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hefur sagt að þær hugmyndir sem unnið sé með núna séu endurbætur á núverandi reiknikerfi veiðigjalda. Byggt verði á þeim grunni. Hvað varði hækkun veiðigjalda hafi ekki verið rætt um að taka upp þrepaskiptingu. Alls óljóst er því enn hve boðuð hækkun veiðigjalda verður á endanum mikil.
Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri hátæknifyrirtækisins Micro sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á fiskvinnslubúnaði í skip og landvinnslu, segir að árið 2024 hafi byrjað afskaplega rólega þegar kom að fjárfestingum. Þar munaði mest um langtíma háa vexti. Eftir miðbik árs 2024 glæddist lítillega yfir markaðnum en staðan er þó enn sú að verkefnastaðan er með þeim hætti að fyrirtækið rétt lifir af. Svipaða sögu má segja af flestum tæknifyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn.
„Miðað við þau loforð sem ný ríkisstjórn hefur gefið kjósendum sínum um breytingar á auðlindagjöldum þá getur það bara þýtt eitt; menn bíða með ákvarðanir um fjárfestingar þar til útfærslan er orðin ljós. Sama staða var uppi þegar Svandís Svavarsdóttir, þáverandi sjávarútvegsráðherra, boðaði breytingar á fiskveiðistjórnunarlögunum; menn bara biðu til að sjá hvaða breytingar kæmu fram. Óvissan er slæm og svo kemur þetta núna ofan í líklegan loðnubrest,“ segir Gunnar Óli.
Afleikur til lengri tíma
„Mér líður eins og að þær stöllur vanmeti það hversu gríðarlega mörg afleidd störf eru í kringum sjávarútveginn. Það er ekki endilega víst að hver sköttuð króna skili sér fyllilega til þeirra án þess að komi til töpuð sköttuð króna annars staðar í virðiskeðjunni. Okkar vöxtur er að miklum hluta tilkominn vegna vilja íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til þess að taka þátt í þróun með okkur. Ég vona að umhverfinu verði ekki breytt á þann veg að sú þróun taki á sig högg. Það væri afleikur til lengri tíma.“
Frekari samþjöppun og fækkun skipa
Hrafnkell Tulinius, fyrrverandi framkvæmdastjóri skipahönnunarfyrirtækisins Nautic og núverandi framkvæmdastjóri Naust Marine ehf., tekur undir að fjárfestingar hafa tekið mikla dýfu samfara hækkandi fjármagns- og fjármögnunarkostnaði. Ljóst sé að vaxtalækkunarferli sé hafið en það dugi ekki til að þíða upp það frost sem verið hefur í fjárfestingum á næstunni.
„Við sjáum að nýsmíðaverkefni sem innihalda nýsköpun tengdri orkuskiptum á sjó eru að tefjast – óvissan er mikil. Óvissuna má rekja til yfirlýsinga nýrra stjórnvalda um aukna gjaldtöku af fiskveiðum, sem nú þegar er 33% af arðsemi veiða, auk þeirra skatta sem fyrirtækin greiða af almennum hagnaði.
Þá má vera öllum ljóst að útgerðirnar halda að sér hönum þegar umhverfið er þannig. Við sjáum að að þeir sem hafa verið að hugleiða nýsmíðar eru í biðstöðu, nýta og endurbæta þau skip sem þeir eiga þegar, kaupa eldri skip í stað þess að fara í stórar fjárfestingar. Ég tel að við megum sá frekari samþjöppun og fækkun skipa á næstu misserum. Tæknifyrirtækin og hönnunarstofur eru að sjálfsögðu að vakta og kanna aðra markaði,“ segir Hrafnkell.