,,Ég veit ekki, frekar en aðrir, hvar ufsinn heldur sig þessa dagana. Hann er alveg týndur. Vertíðarufsinn hefur ekki skilað sér og við þökkum fyrir ef við sjáum hann í stykkjatali. Hins vegar virðist vera nóg af þorski og ýsu á helstu miðum og gullkarfinn er bókstaflega um allan sjó,” segir Árni Gunnólfsson, skipstjóri á frystitogaranum Vigra RE í spjalli á heimasíðu Brims.

Vigri kom til hafnar í Reykjavík á föstudag eftir tiltölulega skamman tíma á veiðum. Um er að ræða svokallaða millilöndun og var aflinn um 11-12 þúsund kassar af fiski en það samsvarar um 300 tonnum af fiski upp úr sjó.

Árni Gunnólfsson, skipstjóri Vigra RE.
Árni Gunnólfsson, skipstjóri Vigra RE.
© Þorgeir Baldursson (.)

,,Við höfum verið að veiðum suður og suðvestur af Reykjanesi og aflinn er ágætur. Við fengum smávegis af djúpkarfa vestur af Matthildi og við reyndum einnig fyrir okkur á Tánni og Selvogsbanka. Það var mjög blandaður afli á Tánni. Mest ýsa en einnig þorskur, gullkarfi og smávegis af ufsa. Ástandið annars staðar er svipað nema ufsann vantar alveg. Svipaðar fréttir berast frá Vestfjarðamiðum. Á Halanum hefur oft verið þokkaleg ufsaveiði á þessum árstíma en nú sést ufsinn ekki. Hins vegar flæðir gullkarfi þar yfir og hans hefur orðið vart niður á um 250 faðma dýpi,” segir Árni.

Að sögn Árna er hann ekki sammála mati margra að Fjöllin séu alveg dauð.

,,Það er auðvitað gullkarfi þar og nóg af þorski. Það eru tegundir sem menn eru ekki að leita að. Allt snýst um að finna og veiða ufsann. Við förum aftur út í kvöld og mér kæmi ekki á óvart að við yrðum látnir eltast áfram við ufsann hér syðra,” segir Árni Gunnólfsson en þess má geta að veiðiferðinni á að ljúka 30. mars nk.