„Það er búin að vera alveg fantaveiði síðan við komum út þó svo við höfum ekkert heyrt af ufsa, það er það sem heldur stemningunni niðri hjá manni,“ segir Tryggvi Eiríksson, skipstjóri á Baldvini Njálssyni sem hélt til veiða að kvöldi 2. apríl.
Tryggvi segir þá hafa byrjað úti á Melsekk og fengið mjög góðan afla af gullkarfa þar og síðan fengið gulllax neðan við Melsekkinn. „Við fórum því næst á Tánna og það var fantaveiði þar af ýsu. Síðan lokaði það út af hrygningarstoppi og við fórum út í Skerjadýpi og tókum gulllax og karfa,“ segir Tryggvi. Ætlunin hafi verið að ná í gulllaxinn en djúpkarfi hafi fylgt með.
„Það á náttúrlega að vera hávertíð“
Síðar var farið norður á Eldeyjarbankakant þar sem Tryggvi segir þá verið í blandaðri veiði áður en þeir gerðu fína veiði í þorski á Jökuldýpinu. Talsvert hefur verið af skipum á þessum sömu slóðum.
„Það á náttúrlega að vera hávertíð. Menn eru allir að bíða eftir því að það komi einhver ufsi en hann hefur verið í felum,“ segir Tryggvi. Ufsinn sé örugglega einhvers staðar. „Það hefur verið ufsaveiði fyrir innan línu og verið ufsi ofan til á Selvogsbanka hjá skipunum sem voru þar. Síðan var ufsi í Röstinni hjá snurvoðarbátunum. En það hefur verið afar lítið um hann síðan við fórum út.“
Voru heppnir á Tánni

Tryggvi segir liggja við að menn séu en að bíða eftir því að vertíðin byrji. „Mönnum finnst þetta allt vera voðalega seint á ferðinni. Þótt það hafi verið ágætis nudd á skipunum er engin vertíðarstemning,“ segir hann.
Miðað við síðustu ár segir Tryggvi lítinn kraft í veiðunum. Til dæmis hafi sést mikið meira af ufsa á vertíðinni 2022. „Á Heimsmeistaranum og Reykjanesgrunni var ofsaveiði á tímabili. Þetta sést ekkert núna,“ segir Tryggvi.
Þrátt fyrir þetta segir Tryggvi hafa gengið afar vel. „Við fengum 210 tonn á fimm veiðidögum á Tánni. Það er ekkert vandamál að sækja þennan karfa og gulllax en þetta snýst allt um vinnsluna og við vorum heppnir og fengum mjög gott af ýsunni á Tánni, upp í tíu tonn á tímann þegar best var. Það er gott að fá hana „dry“ upp á vinnsluna.“