Undanfarna tíu daga eða svo hefur verið mikið líf í og við Hafnarfjarðarhöfn þar sem nokkrir hnúfubakar hafa gert sig heimakomna. Yfirleitt er um þrjá hvali að ræða, tvo smærri og einn stærri, en þriðjudaginn 21. febrúar sáust þó fleiri hnúfubakar, auk hrefnu og höfrunga utar í höfninni. Frá þessu er sagt á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

Hvalirnir virðast vera í smásíld, sem stundum er að finna í torfum á þessum slóðum og árstíma. Tveir hnúfubakana þekkjast á mynd, en hægt er að nota útlitseinkenni til að greina einstaklinga. Hafrannsóknastofnun á Ísafirði náði myndum af öðrum þeirra í Ísafjarðardjúpi árið 2021 (sjá mynd með frétt) en hann hafði einnig sést í Faxaflóa sama ár. Hinn sást á Húsavík 2021, og náði Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík myndum af dýrinu þar, en sami hvalur hefur einnig sést í hvalaskoðunarferðum Special Tours í Faxaflóa við Njarðvík.

Hnúfubakarnir virðast hafa verið í smásíld í Hafnarfjarðarhöfn. FF MYND/EVA BJÖRK
Hnúfubakarnir virðast hafa verið í smásíld í Hafnarfjarðarhöfn. FF MYND/EVA BJÖRK
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )

Hnúfubak fjölgað – hrefnu fækkað

Hnúfubakar voru áður fyrr frekar sjaldgæfir við landið, og í fyrstu skipulögðu hvalatalningum við landið árið 1987 voru um 2000 dýr við landið. Eftir það fjölgaði hnúfubak hratt, og var stofninn kominn í yfir 14000 dýr árið 2001. Síðan þá hefur stofninn haldist nokkuð stöðugur. Athyglisvert er að samfara þessari aukningu í kringum landið hefur hrefnu fækkað, og hnúfubakur því velt hrefnunni úr sessi sem ráðandi tegund skíðishvala við strendur landsins.

Hafrannsóknastofnun stundar rannsóknir á hnúfubökum við landið, aðallega í formi merkinga með gervihnattamerkjum og auðkenningar út frá ljósmyndum, og heldur Hafrannsóknastofnun utan um myndabanka til slíkra rannsókna. Hafa þessar rannsóknir sýnt fram á far hnúfubaka frá fæðuslóðum við Ísland til suðrænna hafsvæða í Karíbahafinu og við Grænhöfðaeyjar.

Á meðan við hvetjum fólk til að koma og skoða þessa skemmtilegu nágranna okkar, viljum við einnig minna stjórnendur báta og skipa á að fara varlega í kringum hvalina og halda ákveðinni fjarlægð frá dýrunum.