„Á allan hátt er vegið að grundvelli atvinnulífs í Langanesbyggð,“ segir Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, sem kveður svör Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra vegna skerts byggðakvóta sveitarfélagsins, vera óskiljanleg.
Svar ráðherrans er við fyrirspurn Þorgríms Sigurðssonar, þingmanns NA-kjördæmis á Alþingi.
„Hvorki sveitarstjórnarfulltrúar, sjómenn eða útgerðarmenn hér í Langanesbyggð skilja svarið og var sveitarstjóra falið að fara fram á það við ráðuneytið að það túlkaði svarið á íslensku mæltu máli og útskýra hvað felst í því,“ segir Björn.
Langanesbyggð krefst áfram leiðréttingar
Svar ráðherrans var til umfjöllunar í sveitarstjórn Langanesbyggðar í gær. Þar var bókað að byggðaráð hefði þegar ályktað vegna fyrirhugaðrar hækkunar á veiðigjaldi sem kæmi til með að hafa mikil áhrif á fjárhag sveitarfélagsins. Enn fremur hafi byggðaráð „ítrekað afstöðu sveitarfélagsins til skerðingar á byggðakvóta Þórshafnar úr 102 tonnum í 32 tonn og setningu grásleppu í kvóta auk skerðingar á byggðakvóta Bakkafjarðar um 15 tonn rétt eftir að ríkið sleppti hendinni af „Brothættri byggð“ á Bakkafirði,“ eins og segir í fundargerðinni.
Sveitarstjórnin sagðist í gær taka undir þessa ályktun byggðaráðs og skorar á þingmenn kjördæmisins að beita sér fyrir betri greiningu á hugsanlegum afleiðingum hækkunar á veiðigjaldi á sveitarfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi.
„Þá lýsir sveitarstjórn yfir undrun sinni á svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi um skerðingu byggðakvóta. Sveitarstjórn Langanesbyggðar mótmælir harðlega skerðingu byggðakvóta og telur ráðherra hafa farið á mis við reglugerð 818/2024. Þess er krafist að leiðrétting verði gerð,“ segir í bókuninni frá í gær.
Fyrirspurnin og svar ráðherra
Fyrirspurnin frá þingmanninum Þorgrími Sigurðssyni til atvinnuvegaráðherra var þannig: Hefur ráðherra vikið frá því að beita ákvæði E-liðar 2. gr. reglugerðar nr. 818/2024 um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2024/2025? Ef svo er, hvenær var það gert og á hvaða forsendum?
Í svari ráðherra segir að reglugerð nr. 818/2024, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2024/2025, skilgreini þær reglur sem stuðst sé við varðandi skiptingu þeirrar ráðstöfunar sem tilgreind sé í 5. gr. reglugerðar nr. 817/2024, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2024/2025 og almanaksárið 2025, er varði byggðakvóta til fiskiskipa.
„Í E-lið 2. gr. reglugerðar nr. 818/2024 segir: „Þegar reiknaður hefur verið út hlutur einstakra byggðarlaga skv. A-lið hér að framan, skal hlutur byggðarlaga með færri íbúa en 400 og sem úthlutað var aflaheimildum á fiskveiðiárinu 2023/2024, og eiga rétt til úthlutunar fiskveiðiárið 2024/2025, leiðréttur þannig að ekkert þeirra lækki um meira en 15 þorskígildistonn, milli fiskveiðiáranna 2023/2024 og 2024/2025.“ Í E-lið er sérstaklega tekið fram að þegar reiknaður er hlutur skv. A-lið skuli leiðrétta hlut byggðarlaga með færri en 400 íbúa,“ segir í svarinu.
Það sé því það túlkun ráðuneytisins að þegar byggðarlag eigi samkvæmt reiknireglu ekki rétt á úthlutun komi ekki til takmörkunar á lækkun skv. E-lið.
Úthluta ef ráðuneytið telur ástæðu til úthlutunar
„Engu að síður eru tilvik þar sem ráðuneytið hefur metið að ástæða sé til úthlutunar í byggðarlögum sem þó eiga ekki rétt á úthlutun samkvæmt reiknireglu eftir að kannað hefur verið hvort raunverulegar breytingar hafi orðið á útgerð eða botnfisksvinnslu í viðkomandi byggðarlagi á grundvelli heimildarákvæðis reglugerðarinnar. Þannig hefur úthlutun til byggðarlaga á undanförnum árum verið leiðrétt í einstaka tilvikum í byggðarlögum sem ekki eiga rétt á úthlutun samkvæmt reiknireglu þegar komið hefur í ljós eftir athugun ráðuneytis að ástæða sé til úthlutunar,“ segir að endingu í svari ráðherra.