Svandís Svavarsdóttir hefur kynnt umfangsmikið nefndastarf sem á að kortleggja íslenskan sjávarútveg og þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunar.
Stefnt er að nýjum heildarlögum um stjórn fiskveiða eða nýjum lögum um auðlindir hafsins, auk annarra lagabreytinga, að því er Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir.
Umfangsmikið nefndastarf er nú að hefjast til að vinna að þessu og eiga niðurstöður að liggja fyrir í lok næsta árs. Fjórir starfshópar, ein verkefnisstjórn og fjölmenn samráðsnefnd fá það hlutverk að „kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunar kerfisins.“
„Í sjávarútvegi ríkir djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti,“ sagði Svandís þegar hún kynnti starfið framundan. „Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt.“
Fulltrúar flokka og hagsmuna
Í samráðsnefndinni taka sæti alls 27 manns, þar á meðal Svandís ráðherra og átta aðrir þingmenn, einn frá hverjum þingflokki.
Fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sitja í nefndinni þau Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri og Ólafur Marteinsson stjórnarformaður. Einnig sitja í nefndinni þeir Arthur Bogason frá Landssambandi smábátasjómanna, Arnar Atlason frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda og Örvar Marteinsson frá Samtökum smærri útgerða.
Sjómannasamband Íslands, Félag skipstjórnarmanna og Félag vélstjóra og málmtæknimanna eiga hvert sinn fulltrúa í hópnum, Samband íslenskra sveitarfélaga á tvo fulltrúa og Félag atvinnurekenda einn. Enn fremur eru þarna fulltrúar frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Landvernd og Ungum umhverfissinnum.
Helstu áherslur
Loks sitja í stóru samráðsnefndinni þau Gunnar Haraldsson, Gréta María Grétarsdóttir, Eggert Benedikt Guðmundsson og Ingunn Agnes Kro, en þau eru jafnframt formenn starfshópanna fjögurra og þau sitja einnig í verkefnisstjórninni.
Gunnar er formaður starfshópsins Samfélag sem á meðal annars að leggja mat á og koma með tillögur varðandi þann ágreining sem verið hefur um stjórn fiskveiða og möguleika til samfélagslegrar sáttar. Eggert stýrir starfshópnum Aðgengi sem á meðal annars að skoða eignatengsl, gagnsæi í rekstri og nýliðun. Gréta stýrir starfshópnum Umgengni sem meðal annars á að skoða umgengni um sjávarauðlindina og rannsóknir á lífríki hafsins. Ingunn er loks formaður starfshópsins Tækifæri sem meðal annars á að fjalla um rekjanleika, fullvinnslu, alþjóðasamskipti og orðspor Íslands.
Því má bæta við að ekkert er nýtt undir sólinni og sagan geymir margflókna nefndarsögu veiðistjórnunar, eins og lesa má um hér.