Garðar B. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Vestmannaeyja, segir reksturinn ganga vel og vera með svipuðu sniði og áður þótt einhverjar sveiflur séu milli mánaða eftir árinu. Starfsemin hafi gengið vel það sem af er ári.
„Það er ívið meiri afli fyrstu þrjá mánuðina heldur en í fyrra. Það er búið að vera mjög líflegt og mikið af fiski. Útlit er fyrir að apríl verði ekki jafn góður og í fyrra en nýliðinn mars var stærsti mánuðurinn síðan ég byrjaði hér,“ segir Garðar sem kom til starfa hjá Fiskmarkaði Vestmannaeyja í september 2021.
Mars og apríl stærstir til skiptis
„Mars og apríl skiptast á að vera stærstu mánuðurnir; það er auðvitað bara náttúran og maður stjórnar henni ekki. Einnig getur það farið svolítið eftir því hvenær röllin eru hjá Hafrannsóknastofnun. Sem dæmi þá var Friðrik Sig á netaralli og byrjaði það núna í mars en í apríl í fyrra. Þess vegna er mars stærri en apríl núna. Reyndar gekk ekki svo vel hjá þeim í netarallinu. Ég held að þeir hafi fengið helmingi minni afla núna en á síðasta ári,“ segir Garðar.
Öllum afla sem fæst í Hafrannsóknaröllunum er landað á markað. Vestmannaeyjatogararnir Breki VE og Þórunn VE voru á rannsóknaralli í mars. „Það er mjög mikil innspýting,“ segir Garðar um aflann sem þessi skip landa.
Allt sem kemur selst
Til einföldunar segir Garðar að það sem komi inn á fiskmarkaðinn frá stóru útgerðunum, Ísfélaginu og Vinnslustöðinni, sé mest allt nema þorskur, ýsa og ufsi. „En það er þó ekki algilt. Ég fæ oft ýsu og ufsa frá þeim en þetta er samt meira þessar aukategundir eins og langa, koli og stundum karfi. Stóru þrjár tegundirnar koma alla jafna ekki í mjög miklu magni til mín,“ útskýrir hann.

Garðar leggur áherslu á að aflinn berist í skömmtun. „Sem dæmi þá er hér togari sem heitir Frár VE. Um daginn fékk ég nánast allt úr honum. Það voru um 130 kör af ýsu en aðra daga fæ ég minna frá honum og þá jafnvel bara nokkur kör. Það koma svona innspýtingar öðru hverju. Í fyrra lenti Breki til að mynda í brjálaðri ufsaveiði og þá var ég að fá fleiri tugi kara af ufsa í hverri löndun,“ segir hann.
Mjög vel gangi að taka á móti eim fiski sem berist jafnvel þótt magnið sveiflist. „Það er ákveðin rútína inni í sal. Við vinnum í raun alltaf nákvæmlega eins, sama hvort það eru tíu kör í húsinu eða tvö hundruð,“ segir Garðar sem aðspurður kveður nánast allt seljast sem komi inn á gólf á markaðnum. „Ef það koma bara nokkur kíló af einhverri tegund þá kaupa fiskbúðirnar það.“
Það lokar aldrei
Þótt mestu verðmætin verði til á vertíðinni og ákveðin innspýting sé líka í október og nóvember segir Garðar alltaf eitthvað um að vera í fiskmarkaðnum. „Ef það eru 250 vinnudagar á ári þá er ég með flutning 230 daga af þeim. Það lokar aldrei.“
Strandveiðar hefjast 5. maí. Garðar segir að í fyrra hafi þrettán eða fjórtán strandveiðibátar komið með afla inn í Fiskmarkað Vestmannaeyja. Hann reikni með svipuðum fjölda í ár. Horfurnar sé að öllu leyti svipaðar og árin á undan. Helst séu blikur á lofti varðandi þorskinn.
„Það eru nokkrar trillur hér sem eiga kvóta sem hafa verið í dálitlum vandræðum með að fá þorsk upp á síðkastið. Þær eru að fá ufsa en það virðst vera minna af þorski. En svo eru netabátar eins og Kap hjá Vinnslustöðinni sem eru að landa fullt af þorski á hverjum degi en ég sé það á þessum minni togurum að þeir eru aðeins lengur að fylla sig en áður,“ segir Garðar.
Hækkun veiðigjalda óúthugsuð
Spurður um möguleg áhrif boðaðrar hækkunar veiðigjalda á fiskmarkaðinn segir Garðar þau óljós.
„Það hefur verið sagt að það gæti þurft að loka öllum vinnslum og þá þyrfti ég að fara að stækka við mig. Mér finnst þetta ekki illa úthugsað hjá stjórnvöldum, mér finnst þau einfaldlega ekki hugsa neitt yfirhöfuð. Mér finnst þetta hljóma einhvern veginn eins og að þau séu að reyna að hía á stóru útgerðirnar en átta sig ekki á því að þarna eru líka miklu fleiri á bak við,“ segir Garðar og nefnir þar litlar útgerðir sem og samfélögin öll sem munu verða fyrir gríðarlegum áhrifum.
„Ef maður tekur Vestmannaeyjar sem dæmi þá koma útgerðirnar hér með gríðarlegt vægi inn í samfélagið. Það væri alveg hrikalegt, ekki bara fyrir Vestmannaeyjar, heldur öll þessi fiskiþorp ef það þyrfti að skera þetta allt niður. Það segir sig sjálft,“ segir Garðar Benedikt Sigurjónsson.